Landsvirkjun vísar ásökunum frá Norðuráli um misnotkun á markaðsstöðu sinni á bug segist hafa farið eftir lögum í einu og öllu í starfsemi sinni, samkvæmt tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér rétt í þessu.
Kjarninn fjallaði fyrr í dag um tilkynningu frá Norðuráli, þar sem álfyrirtækið sagðist hafa sent erindi til Samkeppniseftirlitsins og óskað íhlutunar þess, vegna þess sem það telur vera misnotkun Landsvirkjunar á markaðsráðandi stöðu á skammtímamarkaði með raforku.
Samkvæmt Norðuráli var verðið sem Landsvirkjun rukkaði fyrir orkunotkun álfyrirtækisins hærra en það sem það hafði keypt frá minni orkuframleiðanda, auk þess sem það var yfir verði á Norræna skammtímamarkaðnum, Nord Pool.
Landsvirkjun segir hins vegar í tilkynningu sinni að fyrirtækið fari ávallt eftir ákvörðun samkeppnislaga í starfsemi sinni, m.a. þeim ákvæðum sem banna markaðsráðandi fyrirtækjum að selja orku undir kostnaðarverði og hafa þannig neikvæð áhrif á samkeppni.
Enn fremur bætir Landsvirkjun við að erindi Norðuráls haldist í hendur við tilkynningu móðurfélags þess, Century Aluminium, í gær þar sem tilkynnt var að álveri fyrirtækisins í Suður-Karólínu yrði lokað í desember nk. ef ekki fengist lægra raforkuverð. Að mati orkufyrirtækisins vekur það óneitanlega spurningu um hvort erindið sé liður í áætlun móðurfélagsins um að þvinga niður raforkuverð á starfssvæðum sínum.