„Í síðustu viku braut ég eigin reglu um að læka ekki efni á samfélagsmiðlum, setti læk við færslu vina minna sem reka líkamsræktarstöðina Hress en ákváðu að hafa hana áfram lokaða um skeið,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann segist í ræðu og riti hafa hvatt til aukinnar áherslu á lýðheilsu í samfélaginu öllu og hollrar hreyfingar sem nærir líkama og sál. Í þeim efnum séu líkamsræktarstöðvar nauðsynlegar, staðir þar sem fólk hittist, hreyfir sig og nýtur leiðsagnar sérþjálfaðs liðs.
„Gott er að vita til þess að opnun líkamsræktarstöðva var ströngum skilyrðum háð og að bæði eigendur þeirra og viðskiptavinir einsetji sér að sjálfsögðu að fylgja þeim,“ skrifar Guðni. „En þegar við erum að reyna að fækka smitleiðum, fækka þeim sem þurfa að fara í sóttkví hverju sinni og halda þessari þriðju bylgju veirunnar í skefjum er sjálfsagt að um stundarsakir leiti sem flestir annarra leiða til að hlaupa, lyfta og teygja en að hópast saman inni í líkamsræktarstöð. Til þess er guðsgræn náttúran tilvalin. Armbeygjur eru ekki verri á grasi en plastdýnu.“
Guðni vonast til þess að hægt verði að búa svo um hnútana sem fyrst að fólk geti nýtt sér líkamsræktarstöðvar, sundlaugar og aðra staði til heilsubótar.
„Takmörk á mannamótum snúast um það að sé maður með smit án þess að vita af því er illskárra að maður hafi ekki verið í fjölmenni daginn út og inn. Hafi maður verið í mikilli nánd við aðra fjölgar þeim til muna sem þurfa að fara í sóttkví til að stemma stigu við því að þau smiti fjölmarga aðra og svo koll af kolli. Þess vegna segir sig líka sjálft að vakni grunur um smit, hvað þá fullvissa, á ekki að láta eins og ekkert hafi í skorist, hvort sem er á lofti, láði eða legi,“ skrifar forsetinn.
„Vissulega geta hömlur valdið gremju og þreytu, jafnvel vanlíðan. Á því verðum við að taka en ætti að slaka á tilmælum og leiðbeiningum væri að margra mati réttast að hefja leikinn með því að heimila íþróttaæfingar og skipulagðar tómstundir barna og ungmenna. Því er fagnaðarefni að senn verða þær aftur leyfðar um allt land. Við sem erum eldri skulum þreyja þorrann og tek ég því undir þessi sjónarmið heilbrigðisráðherra: „Hver og einn verður svo að leggja á það mat fyrir sitt leyti hvort hann vill gera allt sem heimilt er innan ramma gildandi takmarkana eða hvort hann vill ganga skemur til að draga enn frekar úr smithættu, eins og okkur er öllum í sjálfsvald sett.“