Lögreglustjórinn á Vestfjörðum tilkynnti í morgun að ákveðið hefði verið að hefja rannsókn á atburði í kjölfar COVID-19 smita á frytstitogaranum Júlíusi Geirmundssyni. Frá þessu er fyrst greint í frétt í blaðinu Bæjarins Besta.
Samkvæmt fréttinni miðar lögreglurannsóknin að því að afla upplýsinga og gagna um þá atburðarás sem varðar smit áhafnarmeðlima frystitogarans. Einnig kemur þar fram að engin hafi réttarstöðu sakbornings að svo stöddu og að ótímabært sé að gefa út frekari upplýsingar að sinni. Tilkynninguna má sjá hér að neðan.
Kjarninn hefur áður fjallað um atburðina á Júlíusi Geirmundssyni, en þar smituðust 22 af 25 áhafnarmeðlimum af COVID-19. Skipið lét hins vegar landhelgisgæsluna ekki vita af hugsanlegu hópsmiti, auk þess sem ekki var farið strax í land eftir að upp komst um veikindin. Samkvæmt Arnari Gunnari Hilmarssyni háseta á togaranum voru menn einnig skikkaðir til að vinna veikir á meðan á túrnum stóð.
Hraðfrystihúsið Gunnvör hf, sem gerir út Júlíus Geirmundsson, sendi svo frá sér yfirlýsingu í gærmorgun þar sem beðist er afsökunar á því að ekki hafa verið í sambandi við Landhelgisgæsluna eins og leiðbeiningar gerðu ráð fyrir. Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var titlaður höfundur í fyrri útgáfum fréttatilkynningarinnar.