„Eftir því sem ég kemst næst hefur umræddur þingmaður ekki fengið þessar tölur frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.“
Þetta kemur fram í svari Gríms Hergeirssonar, lögreglustjórans á Suðurnesjum, við fyrirspurn Kjarnans.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, birti tölur á Facebook-síðu sinni í september og október yfir einstaklinga sem lent hafa á Keflavíkurflugvelli og sótt um alþjóðlega vernd. Hann vildi ekki greina frá því í samtali við Kjarnann hvaðan hann fengi tölurnar.
Samkvæmt Útlendingastofnun fékk þingmaðurinn ekki tölurnar hjá þeim, að því er fram kom í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
Í svari Útlendingastofnunar til Kjarnans sagði að umsóknir um vernd væru lagðar fram hjá lögreglu, flestar í flugstöðinni í Keflavík. „Um þessar mundir fara umsækjendur þaðan í sóttvarnarhús og dvelja þar þangað til niðurstöður úr seinni skimun liggja fyrir en fyrst að því loknu koma þeir í búsetuúrræði Útlendingastofnunar.“
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúsa, sagði þingmanninn ekki hafa fengið þessar upplýsingar hjá sér. Upplýsingar um fjölda hælisleitenda sem í húsin koma dag frá degi væru ekki gefnar utanaðkomandi, hvorki fjölmiðlum, stjórnmálamönnum né öðrum.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sagðist í svari við fyrirspurn Kjarnans ekki vita til þess að embættið hefði fengið fyrirspurnir um fjölda hælisleitenda sem komið hafa til landsins né kannaðist embættið við að hafa veitt þær.