Ríkisstjórn Íslands undirritaði á þriðjudag breytingar á reglugerðum sem gera erlendum ríkisborgurum frá ákveðnum löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) mögulegt að dvelja á Íslandi í allt að sex mánuði og stunda vinnu sína hjá erlendum fyrirtækjum í fjarvinnu.
Um er að ræða breytingu á reglugerð um útlendinga frá árinu 2017. Nýja reglugerðin var birt í stjórnartíðindum í gær. Samkvæmt henni þurfa þeir útlendingar sem sækja um langtímavegabréfsáritun til að stunda hér fjarvinnu að vera með erlendar tekjur sem samsvara að minnsta kosti einni milljón króna á mánuði. Ef maki viðkomandi er með í för þá þarf hann að sýna fram á tekjur upp á að minnsta kosti 1,3 milljónir króna á mánuði.
Nýsköpunarumhverfinu vantar tengingar
Þórdís Kolbrún hefur haft frumkvæði að þessu verkefni og ráðuneyti hennar unnið að því í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Skattinn og fleiri að útfæra heimild fyrir einstaklinga sem eru í föstu ráðningarsambandi við erlend fyrirtæki að dvelja og starfa hér á landi í sex mánuði, en í kjölfar COVID-19 faraldursins hafa fjöldamörg fyrirtæki opnað á fjarvinnu. Fram til þessa hefur aðeins verið hægt að dvelja hér á landi í 90 daga við slíkar aðstæður.
„Til að fá heimild fyrir lengri dvöl þarf viðkomandi að sýna fram á ráðningarsamband, tekjur og sjúkratryggingar. Áfram verður unnið að því að skoða framkvæmdina til að hægt verði að bjóða upp á dvöl til enn lengri tíma. Samstarf og samráð mun hefjast sem fyrst um það hvernig skattamál og dvalarheimildir yrðu útfærðar. Það mun kalla á víðtækt samstarf,“ sagði í tilkynningu um þessa aðgerð á vef stjórnarráðsins.
Þórdís Kolbrún sagði í tilkynningu um málið að til að byggja upp útflutningsgreinar byggðar á hugviti þyrfti að búa til umhverfi, suðupott fólks með hugmyndir og hæfni sem kynnist, lærir af hvert öðru, og býr til tækifæri framtíðarinnar. „Með því að opna nú fyrir og auðvelda starfsfólki að vinna frá Íslandi, bætum við þekkingu og tengingum inn í íslenska umhverfið.“
Ísland hefur, að sögn ráðherrans, sérstöðu hvað varðar landlegu auk þess sem landið tengir tímabelti austur og vestur Evrópu við austur- og mið Bandaríkin. „Við höfum upp á mikið að bjóða fyrir erlenda sérfræðinga og getum lært mikið af þeim. Einn helsti veikleiki íslenska nýsköpunarumhverfisins eru tengingar okkar við útlönd. Með því að hvetja fjarvinnufólk til að koma til Íslands erum við að minnka heiminn og búa til mikilvægar tengingar sem annars væri erfitt að koma á. Nú höfum við stigið þetta mikilvæga skref en ætlum að halda áfram vinnu við að stíga enn stærri skref svo við getum boðið upp á enn lengri dvöl íslensku samfélagi til hagsbóta.“