Sir Keir Starmer, formaður breska Verkamannaflokksins, hefur ákveðið að víkja forvera sínum, Jeremy Corbyn, úr flokknum. Frá þessu er greint í breskum fjölmiðlum í dag. Ástæðan er viðbrögð Corbyns við nýrri skýrslu frá mannréttindasamtökunum EHRC, sem skoðaði ásakanir um gyðingaandúð innan flokksins.
Samtökin komust að þeirri niðurstöðu að flokkurinn, undir stjórn Corbyns, væri ábyrgur fyrir pólitískum afskiptum af kvörtunum um gyðingaandúð frá félagsmönnum, láðst að þjálfa starfsfólk flokksins sem tók á móti slíkum kvörtunum á viðeigandi hátt og sömuleiðis gerst sekur um áreitni.
Í frétt Guardian af þessu máli segir að Corbyn hafi brugðist við skýrslunni í morgun með þeim orðum að mál tengd gyðingaandúð innan Verkamannaflokksins hefðu verið blásin upp í pólitískum tilgangi, bæði af andstæðingum innan flokks og utan og fjölmiðlum.
Corbyn sagði þó jafnframt að hver sá sem segði að enga gyðingaandúð væri að finna innan flokksins hefði rangt fyrir sér og að hann vonaðist til þess að flokkurinn myndi innleiða ráðleggingar frá skýrsluhöfundum hratt og örugglega, þrátt fyrir að hann væri ekki sammála öllum niðurstöðunum.
Forgangsmál hjá Starmer að uppræta gyðingaandúð
Deildar meiningar hafa komið fram um umfang vandans og alvarleika hans á undanförnum misserum, en Keir Starmer hefur gert það að forgangsmáli hjá sér frá því hann tók við formennsku fyrr á árinu að taka á gyðingaandúð innan flokksins með festu.
Hann hefur sagt niðurstöður skýrslunnar skammarlegar fyrir Verkamannaflokkinn.
Tveimur tímum eftir að honum var gert kunnugt um ofangreind ummæli Corbyn vék hann forvera sínum úr flokknum, eftir að Corbyn hafði neitað að draga orð sín, um að vandinn hefði verið blásinn upp, til baka.
Fram kemur í frétt Guardian að brottvísun Corbyn úr flokknum sé tímabundin, að minnsta kosti þar til að rannsókn á málinu fari fram. Corbyn segir í yfirlýsingu á Twitter að hann muni berjast gegn þessari ákvörðun flokksforystunnar, sem sé rammpólitísk.
I will strongly contest the political intervention to suspend me.
— Jeremy Corbyn (@jeremycorbyn) October 29, 2020
I’ve made absolutely clear those who deny there has been an antisemitism problem in the Labour Party are wrong.
I will continue to support a zero tolerance policy towards all forms of racism.