Hagnaður Íslandsbanka og Landsbankans nam samtals 7,4 milljörðum króna á síðasta ársfjórðungi og hefur hann rúmlega tvöfaldast frá því á sama tíma í fyrra. Á þessu tímabili hefur rekstrarkostnaður bankanna beggja minnkað vegna skipulagsbreytinga, en Landsbankinn hagnaðist líka á að þurfa ekki að rýra gildi útlána sinna mikið á meðan Íslandsbanki græddi á bakfærðum færslum eftir sölu Borgunar fyrr á árinu.
Þetta kemur fram í uppgjörum bankana tveggja, sem komu út í dag og í gær. Í tilkynningu á uppgjöri Íslandsbanka sagði Birna Einarsdóttir bankastjóri að árið hafi einkennst af þjónustu og lausnum fyrir viðskiptavini sem hefðu orðið fyrir mestum áhrifum vegna COVID-19.
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans tók í sama streng og sagði bankann hafa brugðist fljótt við kórónuveirufaraldurinn með því að bjóða viðskiptavinum sínum ýmis úrræði til að takast á við vandann og með því að leggja fjárhæðir til hliðar vegna vænts útlánataps.
Húsnæðislánum í bönkunum tveimur hefur einnig fjölgað töluvert miðað við sama tímabil á síðasta ári, en vaxtalækkanir Seðlabankans leiddu til lægri vaxta á þeim, og skilaði það sér í mikilli eftirspurnaraukningu á húsnæðismarkaði í ár.
Minni rekstrarkostnaður
Báðir bankarnir nefna einnig að rekstarkostnaður þeirra hafi dregist töluvert saman í ár, miðað við sama tímabil í fyrra. Hjá Íslandsbanka lækkaði stjórnunarkostnaður um 8,9 prósent, en samkvæmt bankanum er það vegna skipulagsbreytinga sem farið hefur verið í, meðal annars fækkun stöðugilda. Hjá Íslandsbanka skiptir þar helst máli að framlög í Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta hafa dregist saman um 165 milljónir.
Virðisrýrnun var þegar bókfærð
Annar stór þáttur sem hafði jákvæð áhrif á rekstur Landsbankans var sá að ekki þurfti að bókfæra miklar eignir til virðisrýrnunar miðað við sama tímabil í fyrra, þrátt fyrir að gæði útlána hafi versnað í kjölfar efnahagsáfallsins vegna veirunnar. Samkvæmt Lilju Björk er þetta þó tilkomið vegna þess að Landsbankinn hefði nú þegar bókfært stóran hluta af eignasafni sínu snemma á árinu, eða alls um 13,5 milljarða króna.
Eftirköst af sölu Borgunar jákvæð
Hjá Íslandsbanka vó vöxtur hreinna þóknanatekna þungt í jákvæðri rekstrarniðurstöðu, en þær jukust um 12,3% milli ára. Samkvæmt bankanum skýrist þessi aukning af hærri tekjum frá eignastýringu, fjárfestingabankastarfsemi og verðbréfamiðlun, en einnig vegna sölu Borgunar hf. þar sem eyðingarfærslur fyrsta árshelmings voru bakfærðar í kjölfar sölu félagsins.