„Við erum alls staðar að sjá ríki grípa til hertra aðgerða,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu í dag, þar sem hertar sóttvarnaráðstafanir voru kynntar.
Þær taka gildi strax á miðnætti og munu gilda um land allt næstu vikur, eða til 17. nóvember, samkvæmt reglugerð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem rædd var og samþykkt á ríkisstjórnarfundi í dag.
Hvað breytist?
Helstu breytingar eru þær að einungis 10 manns mega koma saman í stað 20 áður, aukin áhersla verður á grímunotkun, íþróttastarf leggst alveg af og sviðslistir sömuleiðis.
Einungis apótek og matvöruverslanir eru undanþegnar þessum fjöldatakmörkunum, en þar mega 50 manns vera innan sama rýmis og að hámarki 100 ef verslanir eru mjög stórar. Tíu manna fjöldatakmarkanir gilda um aðrar verslanir.
Sundlaugar verða áfram lokaðar og krár og skemmtistaðir einnig og öll þjónusta sem krefst nálægðar og hefur verið bönnuð undanfarnar vikur er áfram bönnuð.
Veitingastaðir þurfa að loka dyrum sínum kl. 21 á kvöldin. Börn fædd 2015 og síðar eru þau einu sem verða undanþegin reglum um grímuskyldu, fjöldatakmörkunum og tveggja metra reglu.
Skólar áfram opnir – nánar útfært síðar
Skólar verða áfram opnir, en von er á nánari útfærslu á sérstakri reglugerð um skólastarf eftir helgi. Búast má við því að eitthvað rask verði á skólastarfi, sérstaklega í elstu bekkjum grunnskóla, samkvæmt því sem ráðherrar sögðu á blaðamannafundinum.
Farið eftir tillögum sóttvarnalæknis
Heilbrigðisráðherra sagði á blaðamannafundinum í dag að einungis væri vikið að einu leyti frá tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um hertar ráðstafanir – hann lagði til að 20 manns að hámarki mættu vera viðstödd útfarir en ríkisstjórnin samþykkti að 30 manns mættu koma til útfara.
Katrín Jakobsdóttir sagði aðspurð í viðtali við RÚV eftir blaðamannafundinn að full samstaða hefði verið um aðgerðirnar innan ríkisstjórnar, en auk hennar og Svandísar voru þær Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Frekari efnahagsaðgerðir ræddar
Forsætisráðherra sagði ljóst að þessar hertu aðgerðir myndu kalla á frekari efnahagsleg viðbrögð af hálfu stjórnvalda og ríkisstjórnin hefði meðal annars rætt útvíkkun tekjufallsstyrkja á fundi sínum í dag, en að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra myndi nánar fara yfir þau mál síðar í dag.
Helstu takmarkanir
- 10 manna fjöldatakmörk er meginregla, en þó er heimild fyrir 30 manns í útförum en 10 að hámarki í erfidrykkjum. 50 manna hámarksfjöldi í lyfja- og matvöruverslunum en reglur um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðisins. Í öðrum verslunum mega mest 10 koma saman.
- Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
- Fjöldatakmarkanir gilda ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis og dómstóla.
- 10 manna fjöldatakmörk eiga ekki við þegar fleiri búa á sama heimili.
- Íþróttir óheimilar.
- Sundlaugum lokað.
- Sviðslistir óheimilar.
- Krám og skemmtistöðum lokað.
- Veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega ekki hafa opið lengur en til 21.00.
- Grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
- Börn fædd 2015 og síðar undanþegin 2 metra reglu, fjöldamörkum og grímuskyldu (gilti áður um börn fædd 2005 og síðar).
Á vef stjórnarráðsins segir að ráðherra geti veitt undanþágu frá takmörkunum vegna félagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast. Þar undir fellur m.a. heilbrigðisstarfsemi og félagsþjónusta. Ráðherra getur einnig veitt undanþágu við banni frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlegra keppnisleikja.