Samkvæmt lögum áttu allir stjórnmálaflokkar landsins að skila inn ársreikningi sínum, undirrituðum af endurskoðanda, til Ríkisendurskoðanda í síðasta lagi nýliðinn laugardag.
Kjarninn sendi fyrirspurn á Ríkisendurskoðun í seint í síðustu viku og spurðist fyrir um hvort einhverjir þeirra stjórnmálaflokka sem lögin ná yfir hefðu skilað inn ársreikningi, en föstudag var síðasti virki dagurinn áður en lokafrestur til að skila þeim inn til Ríkisendurskoðunar rann út.
í svari frá Ríkisendurskoðun sagði að allir reikningar sem borist hefðu vegna 2019, og hefðu þegar verið yfirfarnir, væru þegar birtir á heimasíðu stofnunarinnar. Enginn ársreikningar þeirra átta stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi hafa enn sem komið er verið birtir þar.
Í svarinu sagði enn fremur: „Um leið og ársreikningar stjórnmálaflokka berast eru þeir yfirfarnir með tilliti til þess hvort framlög til þeirra séu í samræmi við lög. Að lokinni þeirri athugun eru reikningarnir birtir í heild sinni á vef Ríkisendurskoðunar.“
Skil færð, frestur gefin og allt birt
Ný lög um fjármál stjórnmálaflokka voru samþykkt á Alþingi í desember 2018. Á meðal breytinga sem þau lög fólu í sér voru að stjórnmálaflokkar mega nú taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlagið var 400 þúsund krónur en var hækkað í 550 þúsund krónur.
Auk þess var sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur. Hugtakið „tengdir aðilar“ var auk þess samræmt.
Í nýju lögunum er einnig ákvæði um bann við nafnlausum áróðri. Þar segir að stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, sé óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.
Þá var ákveðið að láta stjórnmálaflokkanna skila ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda fyrir 1. nóvember ár hvert í stað 1. október líkt og nú er. Sú grundvallarbreyting fylgdi með að Ríkisendurskoðun mun hætta að birta takmarkaðar upplýsingar úr reikningum flokkanna, svokallaðan útdrátt, og birtir þess í stað ársreikninganna í heild sinni áritaða af endurskoðendum.
Þrátt fyrir að lögin hafi tekið gildi í byrjun árs í fyrra þurftu flokkarnir þó ekki að sæta því að ársreikningar þeirra væru birtir í heild á árinu 2019. Þeirri framkvæmd var frestað fram á haustið 2020.
Allir stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi skiluðu ársreikningum sínum til ríkisendurskoðunar fyrir 1. október 2019, en lögbundinn frestur þeirra til að gera slíkt rann út þá.
Í kjölfarið var í síðasta sinn birtur útdráttur úr reikningnum með takmörkuðum upplýsingum um fjármál flokkanna. Hægt er að lesa um það sem kom fram í þeim útdráttum hér og hér.