„Það er eitt ótrúlegt mál sem við höfum verið að fást við núna en það er varðandi grímuskyldu í verslunum. Nú, það er þannig að einstaklingurinn ber auðvitað ábyrgð á því að vera með grímu og það er grímuskylda. Það er ótrúlega að heyra dæmi frá starfsfólki verslana um ókurteisi, hótanir og nánast ofbeldi frá viðskiptavinum þegar starfsmenn, sem oft er ungt fólk, eru við dyrnar og að leiðbeina fólki. Þetta er alveg ótrúlegt.“
Þetta sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi almannavarna í morgun.
„Við erum að reyna að vinna þetta saman og þetta er svo mikið kjaftæði að ég trúi bara ekki að við séum að takast á við þetta núna,“ sagði hann.
Hertar sóttvarnaráðstafanir voru kynntar á föstudaginn og tóku gildi strax á miðnætti sama dag en aðgerðirnar gilda til 17. nóvember næstkomandi. Einungis 10 mega koma saman, nema í útförum, matvöruverslunum, apótekum og almenningssamgöngum. Einungis apótek og matvöruverslanir eru undanþegnar þessum fjöldatakmörkunum, en þar mega 50 manns vera innan sama rýmis og að hámarki 100 ef verslanir eru mjög stórar. Tíu manna fjöldatakmarkanir gilda um aðrar verslanir.
Hvetur þá sem ekki eru með „lífsnauðsynlega starfsemi“ að sækja ekki um undanþágur
Víðir sagði á fundinum að mörg hundruð beiðnir um undanþágur frá nýjum reglum um fjöldatakmarkanir hefðu borist og að starfsfólk sóttvarnalæknis, almannavarna og heilbrigðisráðuneytisins hefði unnið fram á nótt við að svara þessum undanþágubeiðnum.
„Það gengur ágætlega en þetta eru hundruð beiðna. Það er mikilvægt ef við ætlum að horfa á markmið þessara aðgerða og ef þær eiga að skila einhverjum árangri að það séu ekki allir að leita að undanþágum. Ég held að það hafi verið tiltölulega skýrt þegar þessar reglur voru kynntar á föstudaginn að við værum að fara í hörðustu aðgerðir sem hafa verið í þessum málum hingað til og í lýðveldissögunni og þau nást ekki ef það á að veita undanþágur til allra. Þannig að við hvetjum þá sem eru ekki beinlínis með lífsnauðsynlega starfsemi í gangi að vera ekki að sækja um undanþágur, heldur aðlaga sig að þessu ástandi næstu vikurnar.“