Tuttugu og fimm viðskiptavinir mega að hámarki koma inn í Vínbúðir landsins, samkvæmt breytingum sem ÁTVR hefur ákveðið að gera til þess að koma til móts við óskir sóttvarnayfirvalda.
Áður var verið að hleypa 35 inn í stærstu Vínbúðirnar, eftir að ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum tók gildi á laugardag, en færri inn í þær minni og jafnvel færri en 10 viðskiptavinum í minnstu búðunum í landsbyggðunum.
Þetta kemur fram á vef ÁTVR, en Kjarninn sendi fyrirspurn þangað í gær eftir að Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi almannavarna að yfirvöld hefðu hreinlega ekki haft hugmyndaflug til þess að átta sig á því að áfengi væri lögum samkvæmt skilgreint sem matvæli og að Vínbúðirnar myndu því falla undir sömu undanþágur og matvöruverslanir og lyfjaverslanir.
Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) furðaði sig á því í kvöldfréttum RÚV á laugardag að fleirum en 10 væri hleypt inn í Vínbúðirnar, á meðan að rekstraraðilar um allt land væru að aðlaga sig hertum ráðstöfunum stjórnvalda og margir hverjir með húsnæði sem bæri mun meiri fjölda en Vínbúðirnar.
ÁTVR sagðist í gær vera með málið til skoðunar, en segir í dag að ákvörðun hafi verið tekin um að 25 viðskiptavinir megi koma inn í stærstu Vínbúðirnar.
„Alls staðar er tveggja metra reglan í hávegum höfð og það er hún sem ræður fjölda viðskiptavina á hverjum stað,“ segir ÁTVR.