Pål K. Lønseth, æðsti yfirmaður Økokrim, efnahagbrotadeildar norsku lögreglunnar, segist vanhæfur til að fara með rannsókn á mögulegum peningaþvættislagabrotum norska bankans DNB vegna fyrri starfa sinna, sem hafi tengingu við Samherja og þær rannsóknir sem eru í gangi í Namibíu og á Íslandi vegna meintra mútugreiðsla og annarra brota.
Lønseth lýsti sig vanhæfan til að fara með rannsókn á DNB í lok september, en hann starfaði sem lögfræðingur fyrir endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers (PwC) frá 2013 og þar til í sumar þegar hann var ráðinn til Økokrim.
Hann sagði nýlega við norska blaðið Dagens Næringsliv að í störfum sínum fyrir PwC hefði hann verið fenginn til að rannsaka hvort mútugreiðslur hefðu átt sér stað í fyrirtæki sem áður var í eigu Samherjasamstæðunnar.
„Sem lögmaður hjá PwC var ég ráðinn af fyrirtæki sem hafði keypt fyrirtæki af Samherja-samstæðunni. Þáverandi viðskiptavinur minn óskaði eftir rannsókn á því hvort fyrirtækið sem hann keypti hefði verið viðriðið mútugreiðslur. Rannsóknin sem við gerðum hafði snertifleti við rannsóknir Namibíu og Íslands, en enga beina þýðingu fyrir rannsóknina á mögulegum brotum DNB á peningaþvættilöggjöfinni,“ hefur Dagens Næringsliv eftir Lønseth.
Hann sagði ekki frá því hvaða fyrirtæki hann var fenginn til að rannsaka eða hvenær nýir eigendur þess fengu PwC í Noregi til þess að rannsaka starfsemina.
Málið færist til Ósló
Vitnað er til þessara orða hans í frétt blaðsins í dag, þar sem greint er frá því að ríkislögmaður Noregs hafi ákveðið að færa rannsóknina á DNB í tengslum við Samherjamálið frá Økokrim og til saksóknaraembættisins í Ósló.
Norski bankinn DNB sleit sem kunnugt er viðskiptasambandi sínu við Samherja í lok síðasta árs, án útskýringa. Ekki hefur komið fram opinberlega af hverju sú ákvörðun var tekin innan bankans.