Fylgi Vinstri grænna mælist nú 11,9 prósent og lækkað um 1,8 prósentustig milli mánaða samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn er á svipuðum slóðum og hann var í lok september með 23,5 prósent fylgi og Framsóknarflokkurinn bætir við sig einu prósentustigi og mælist með stuðning 7,7 prósent kjósenda.
Þess ber þó að geta að fylgi Framsóknarflokksins í lok síðasta mánaðar, sem var 6,7 prósent, var það lægsta sem Gallup hefur nokkru sinn mælt hjá flokknum að einni könnun undanskildri. Sú könnun var gerð í september 2018 og sýndi flokkinn með 6,6 prósent fylgi.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja er nú 43,1 prósent og allir mælast þeir undir kjörfylgi, en þeir fengu samanlagt 52,9 prósent í kosningunum 2017. Því hafa þeir saman tapað um tíu prósentustigum.
Viðreisn bætir við sig
Samfylkingin er næst stærsti flokkur landsins samkvæmt Gallup og alls segjast 15,8 prósent kjósenda styðja hann. Píratar mælast með 12,1 prósent fylgi og dala lítillega á milli mánaða. Viðreisn mælist með 11,6 prósent fylgi sem er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum Gallup á þessu ári.
Mest hefur Viðreisn bætt við sig, eða 4,9 prósentustigum. Samfylkingin mælist nú með 3,7 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í október 2017 og Píratar hafa bætt við sig 2,9 prósentustigum.
Þá mælist Sósíalistaflokkur Íslands með 2,7 prósent fylgi, en hann mun bjóða fram til Alþingis í fyrsta sinn í september næstkomandi þegar næstu þingkosningar fara fram. Flokkurinn hefur einungis einu sinni mælst með fimm prósent fylgi í könnunum Gallup, í lok febrúar síðastliðins. Þess ber þó að geta að Sósíalistaflokkurinn hefur ekki kynnt hverjir munu manna lista flokksins, og skera sig því úr á meðal þeirra flokka sem mældir eru.
Undir kjörfylgi
Tveir flokkanna í stjórnarandstöðu mælast með minna fylgi en þeir fengu í síðustu kosningum. Miðflokkurinn hefur ekki mælst yfir kjörfylgi frá því í mars og nú segjast 9,9 prósent að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag. Það er nánast sama hlutfall og fyrir mánuði síðan. Miðflokkurinn fékk 10,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017.
Flokkur fólksins hressist aðeins á milli mánaða og mælist með 4,5 prósent fylgi. Flokkurinn hefur hins vegar ekki mælst með yfir fimm prósent fylgi í könnunum Gallup frá því í lok árs 2018, eða í tæp tvö ár. Hann fékk 6,9 prósent atkvæða í síðustu kosningum.
Niðurstöður um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 30. september til 1. nóvember 2020. Heildarúrtaksstærð var 10.937 og
þátttökuhlutfall var 54,0 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,5-1,2 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.