Hagnaður fasteigna-olíu- og smásölufyrirtækisins Festar nam 1,7 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og er það 16 prósentum minna en á sama tímabili í fyrra. Hagnaðurinn jókst töluvert í smásöluhluta fyrirtækisins, en dróst nokkuð saman í annarri starfsemi þess.
Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri Festar fyrir þriðja ársfjórðung, sem nær frá júlí til september. Framlegð félagsins á því tímabili var nokkuð hærri en á sama tíma í fyrra, eða um 3,3 prósent. Aftur á móti hafði hagnaður félagsins dregist saman og var hann rúmum fimmtungi minni í ár heldur en í fyrra.
Aukinn hagnaður hjá Krónunni og Elko
Ef litið er til fyrstu níu mánuði sést að allir þættir í starfsemi Festar skiluðu hagnaði. Hagnaðurinn er þó mismikill og hefur hann breyst töluvert frá sama tímabili í fyrra. Betur hefur gengið í smásölurekstri félagsins, en hagnaður af rekstri Krónunnar hefur aukist úr 552 milljónum krónum í 584 milljónir króna.
Einnig stórjókst hagnaður Elko úr 47 milljónum króna í fyrra í 348 milljónir króna í ár, en Eggert Þór Kristófersson forstjóri félagsins segir rekstur raftækjaverslunarinnar hafa verið langt umfram væntingar. Enn fremur bendir Eggert á að aukningin hafi átt sér stað, þrátt fyrir 70 prósenta tekjusamdrátt í raftækjabúðinni í Leifsstöð.
Minni hagnaður hjá N1, fasteignafélaginu og lagerþjónustu
Aðra sögu er að segja um rekstur N1, en hagnaður olíufélagsins dróst saman úr tæpum 400 milljónum króna í fyrra í tæpar 30 milljónir í ár. Samdráttinn má að mestu leyti rekja til tekjufalls í eldsneytisverslun, en þær drógust saman um tæpan fimmtung. Þrátt fyrir það segir Eggert að rekstur N1 hafi gengið mjög vel í sumar, en að félagið hafi fundið mikið fyrir samkomutakmörkunum í haust.
Undir Festi er líka fasteignafélag og Bakkinn vöruhótel, sem sér um lagerþjónustu. Samkvæmt ársfjórðungsuppgjörinu hefur tekjum í þessum tveimur félögum stórlækkað í ár, en þær voru helmingi minni en á sama tímabili í fyrra. Einnig hefur hagnaður þeirra stórlækkað, úr 4,2 milljörðum króna í fyrra niður í 130 milljónir króna í ár. Rekstrarniðurstöður þessarra tveggja félaga er ekki sundurgreind frekar í uppgjörinu, þannig að óvíst er hvort annað þeirra hafi skilað tapi í ár.
Rekstrarniðurstöður Festar svipa til niðurstaðna smásölu-og olíufyrirtækisins Haga, sem Kjarninn fjallaði um í síðustu viku. Þar jukust tekjur í verslunum fyrirtækisins, en drógust saman um rúmlega fimmtung í eldsneytissölu.