Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir það sem hann kallar „alræði sóttvarna“ á Íslandi í aðsendri grein sem birtist á Vísi í dag. Hann segir að hann sé orðinn „sannfærðari en áður að við og flest önnur ríki höfum ekki brugðist rétt við í baráttunni við veiruna.“
Þingmaðurinn segist telja vænlegra til árangurs að afmarka aðgerðir til að vernda þá sem eru í hættu, gefa út almenn tilmæli um að hver passi sig og undirbúa heilbrigðiskerfið undir aukið álag vegna veirunnar. Hann segir að ríkisvaldið hér á landi hafi stigið „stærri skref til alræðis en nokkru sinni fyrr í okkar sögu“ með þeim sóttvarnaraðgerðum sem hefur verið beitt til þess að reyna að hemja útbreiðslu veirunnar innanlands.
„Allir þurfa svo að ganga í takt og viðurlögin ef út af bregður er opinber smánun. Öll gagnrýni er kaffærð með hræðsluáróðri,“ skrifar Brynjar og segir allt þetta með eindæmum. Nú sé svo komið að „meðvirkni“ hans með sóttvarnaraðgerðunum sé lokið.
Í greininni segir hann þó einnig að það hvarfli ekki að sér að gera lítið úr veirunni og áhrifum hennar á gamalt fólk og veikburða, sem geti jafnvel verið banvæn, en um leið segir hann veiruna þó ekki hafa í för með sér „slíkt neyðarástand sem réttlæti að setja blóðtappa í þjóðarlíkamann með svona almennum og íþyngjandi takmörkunum.“
„Til að takmarka frelsið svona mikið þarf meira neyðarástand“
Brynjar segir að þær aðgerðir sem ráðist hafi verið í hafi ekki skilað þeim árangri sem að er stefnt og athygli ráðamanna hafi dreifst um víðan völl.
„Í stað þess að vernda þá sem eru í alvarlegri hættu hefur öll áherslan verið á daglegan hræðsluáróður, dreifingu á villandi tölfræði og tilraunum til að stýra öllu, stóru og smáu, í samfélaginu,“ skrifar þingmaðurinn, sem segir í niðurlagi greinar sinnar að hann viti „auðvitað ekki frekar en aðrir hvað er alltaf rétt að gera í stöðunni hverju sinni“, en tíminn muni kannski leiða það í ljós.
„Ég vil samt búa í frjálsu samfélagi. Til að takmarka frelsið svona mikið þarf meira neyðarástand en þessa veira veldur og það sem er enn mikilvægara þá mega takmarkanir og þvinganir ekki hafa verri áhrif á líf okkar og heilsu til lengri tíma en veiran sjálf. Mér finnst þetta sjónarmið rökrétt og eðlilegt og þurfi ekki að kalla á útskúfun eða aðra opinbera smánun,“ skrifar Brynjar.
Heilbrigðisráðherra kallar eftir lausnum, ekki bara gagnrýni
Þau sjónarmið sem Brynjar viðrar í grein sinni hafa verið nokkuð til umræðu undanfarnar vikur, ekki síst eftir að hin svokallaða Great Barrington-yfirlýsing leit dagsins ljós í byrjun októbermánaðar, en megininntakið í henni er að verja eigi viðkvæma hópa en leyfa öðrum að byrja að lifa eðlilegu lífi á ný, án tafar, þar sem aðgerðirnar gegn veirunni séu að valda samfélögum meiri skaða en faraldurinn sjálfur.
Sigríður Á. Andersen samflokkskona Brynjars hefur talað á svipuðum nótum, sagt að opinberar sóttvarnaráðstafanir gangi of langt og hafi jafnvel áhrif sem séu skaðlegri en faraldurinn sjálfur, auk mikilla skerðinga á borgaralegum réttindum fólks.
Hún og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræddu einmitt um þessi mál í þingsal fyrir helgi og þá kallaði Svandís eftir því að Sigríður útskýrði betur hvernig hún vildi bregðast við útbreiðslu faraldursins.
„Hvað er það sem háttvirtur þingmaður leggur til? Það hefur aldrei komið fram. Leggur háttvirtur þingmaður til að við förum ekki að ráðum sóttvarnalæknis í glímunni við COVID-19? Hvað er það sem viðkomandi þingmaður leggur til? Það dugar nefnilega ekki að tala bara á móti einhverju. Maður ber ábyrgð hérna í þessum þingsal sem þingmaður,“ sagði ráðherra.
Bent hefur verið á það í umræðu um sjónarmið af þeim meiði að best sé að vernda viðkvæma hópa fyrir veirunni á meðan að slakað verði á almennum aðgerðum sem gangi yfir alla, að stór hluti íslensku þjóðarinnar teljist í áhættuhóp gagnvart sýkingu af völdum veirunnar.
Þau Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn skrifuðu í aðsendri grein í Fréttablaðið að aldraðir og aðrir áhættuhópar væru minnst fimmtungur Íslendinga, lauslega áætlað. Þau sögðu einnig að leið Great Barrington-hópsins kynni að „vera nánast óframkvæmanleg,“ ef vilji væri til þess að halda innviðum heilbrigðiskerfisins starfandi.