Þrjú eignarhaldsfélög, sem samtals eiga 36 prósenta hlut í Skeljungi hf., gerðu tilboð um að kaupa upp allt hlutafé félagsins í morgun. Að baki þessara þriggja félaga eru tíu virkir fjárfesta, enn fimm þeirra eru erlendir. Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar stjórnarformanns félagsins, myndi ein eiga rúmlega þriðjung af félaginu, verði tilboðið samþykkt.
Tilkynningin um yfirtökutilboðið barst á vef Kauphallarinnar í morgun. Þar segir að hlutur þriggja félaga sem eiga nú Skeljung muni verða sameinað í eignarhaldsfélagið Strengur ehf.
Þessi þrjú félög eru 365 hf., RES 9 ehf, og RPF ehf. Með sameiningunni á einn lögaðili 36 prósenta hlut í olíufyrirtækinu, en þá þarf lögum samkvæmt að gera tilboð í yfirtöku á öllu félaginu.
Ef af yfirtökunni yrði myndi eignarhlutur félags Ingibjargar, 365 hf., verða 38 prósent, á meðan félagið RES 9 ehf. myndi eiga 38 prósent og RPF ehf. myndi eiga 24 prósent.
Hjón í Panamaskjölum og breskir fjárfestar
Félagið RES 9 ehf. er að hluta til í eigu Sigurðar Bollasonar fjárfestis og eiginkonu hans, Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur. Sigurður var meðal umsvifamestu Íslendinganna í Panamaskjölunum, en samkvæmt umfjöllun Stundarinnar var hann, ásamt viðskiptafélaga sínum Magnúsi Ármanni, tengdur 20 skúffufélögum í Panama.
RES 9 er einnig í eigu félagsins No. 9 Investments Ltd, sem er skráð í Bretlandi. Helstu eigendur þess félags eru Bretarnir Stefan John Cassar, John Mccarthy, Hanna Maura Mccarthy-Bridges, Sean John Mccarthy og Ray Flannery.
Seldu hlut í Kviku til hjónanna
Félagið RPF ehf. er svo í eigu viðskiptafélaganna Þórarins Arnars Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar, sem báðir eru eigendur Re-Max á Íslandi, auk þess sem Þórarinn er stjórnarmaður í Skeljungi. Félagarnir voru með stærstu hluthöfum Kviku banka, með allt að níu prósenta eignarhlut. Samkvæmt Viðskiptablaðinu seldu þeir þó mestallan hlut sinn í bankanum í síðasta mánuði til hjónanna Sigurðar og Nönnu Bjarkar.
Vaxandi ítök í félaginu
Kjarninn hefur áður fjallað um vaxandi ítök Ingibjargar Pálmadóttur í Skeljungi, en hún keypti fyrst hlut í félaginu eftir að hafa minnkað hlut sinn í Högum í fyrra. Eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, settist í kjölfarið í stjórn félagsins þegar Ingibjörg átti rúmlega 4 prósent í fyrirtækinu og varð svo stjórnarformaður eftir að hún var búin að eignast meira en tíu prósenta hlut.
Hjónin komu einnig fyrir í Panamaskjölunum, þar sem þau voru prókúruhafar félags sem var í eigu Ingibjargar og fjármagnaði rekstur annarra félaga sem tengd voru Jóni Ásgeiri með einhverjum hætti.