Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirritaði fyrr í dag samning við lyfjafyrirtækið Pfizer um kaup á 200 milljónum skammta af bóluefni fyrirtækisins við COVID-19 með möguleika á 100 milljón skömmtum til viðbótar. Íslandi er tryggður sami aðgangur að bóluefnum sem Evrópusambandið semur um og aðildarríkjum sambandsins.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá framkvæmdastjóri Evrópusambandsins sem birt var í dag.
Kjarninn hefur fjallað um jákvæðar fréttir frá Pfizer og BioNTech, en á mánudag lýstu fyrirtækin því yfir að 90 prósent þeirra sem fengið hafi bóluefnið hafi myndað ónæmi gegn kórónuveirunni, sem þykir eins góður árangur og vonast er hægt af fyrstu kynslóð bóluefnis.
Þar sem heildarmannfjöldi EES-svæðisins nemur rúmum 460 milljónum manna og hver einstaklingur þarf tvo skammta af bóluefninu má búast við að allt að þriðji hver íbúi svæðisins verði bólusettur. Af þeim væru 120 þúsund Íslendingar.
Slíkur fjöldi væri þó ekki nægur til að mynda hjarðónæmi gegn veirunni hér á landi, en heilbrigðisráðuneytið hefur áður gefið að út að 550 þúsund skammta þyrfti til að það myndist. Bóluefnið frá Pfizer og BioNTech dugir því einungis fyrir tæpum helmingi af því.
Pfizer og BioNTech gætu fengið neyðarleyfi fyrir bóluefni sínu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun á fyrsta fjórðungi næsta árs, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ríkisstjórnir hvers lands munu svo forgangsraða hverjir fá efnið.