Þann 1. júní 2021 mun tæknifyrirtækið Google hætta að bjóða upp á ótakmarkað ókeypis pláss fyrir ljósmyndir í háum gæðum í skýjalausninni Google Photos, sem stór hluti jarðarbúa hefur á undanförnum árum byrjað að nýta til þess að geyma ljósmyndir og myndskeið sem ekki er lengur pláss fyrir í snjallsímum.
Helsta aðdráttaraflið við þessa lausn hefur einmitt verið hið ótakmarkaða ókeypis geymslupláss, á meðan að mörg önnur fyrirtæki hafa lengi rukkað fyrir sína skýjaþjónustu.
Google auglýsti „ókeypis og ótakmarkað“ af miklum krafti árum saman og yfir milljarður notenda um heim allan notar þessa lausn nú til þess að taka afrit af ljósmyndum og færa í stafræna geymslu. 28 milljörðum mynda er hlaðið upp í Photos-skýið í hverri viku, samkvæmt tilkynningu frá Google.
En brátt verður geymsluplássið ekki lengur ókeypis. Þess í stað verður hægt að geyma 15 gígabæt af myndum og myndskeiðum og öðru efni hjá Google án endurgjalds, en fyrir umframgeymslupláss mun þurfa að greiða sérstaklega. Eigendur Pixel-snjallsíma frá Google munu reyndar áfram geta geymt sínar myndir í háum gæðum ókeypis.
Myndir og myndskeið sem búið verður að hlaða upp í skýið fyrir 1. júní á næsta ári munu ekki telja með í þessum 15 gígabætum, svo fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að eldri myndir fylli kvótann um leið. Á sama tíma mun Google kynna til leiks nýja tæknilausn til þess að finna og flokka frá dökkar eða hreyfðar ljósmyndir og eyða þeim og spara þannig geymslupláss.
„Þessi ákvörðun er tekin að ígrunduðu ráði og við gerum okkur grein fyrir að þetta er mikil breyting. Þess vegna vildum við láta þig vita með góðum fyrirvara og sýna þér hvað þú getur gert,“ sagði Google í tilkynningu til íslenskumælandi notenda sinna í gærkvöldi.
Þar sagði einnig að Google áætli að flestir muni ekki þurfa að grípa til aðgerða næstu árin, en fyrirtækið er búið að búa til sérsniðna áætlun sem spáir fyrir um hvenær hver og einn notandi verði búinn að fylla þau 15 gígabæt af ókeypis geymslurými sem hann nýtir í dag.
Í tilfelli blaðamanns Kjarnans verður það eftir um það bil eitt ár, að mati Google.
En af hverju er Google að þessu? Einfalda svarið virðist vera það að Google vilji fara að hafa tekjur af þeim gríðarlega fjölda notenda sem það hefur lokkað inn í forritið með því að bjóða upp á gjaldfrjálsa þjónustu í samkeppni við aðra aðila eins og Apple, sem rukkar mánaðarlegt gjald fyrir iCloud-þjónustu sína.
Í umfjöllun bandaríska tæknimiðilsins Verge um þessar breytingar segir að það sé álitleg ágiskun að Google vilji að fleiri gerist áskrifendur að gagnageymslulausninni Google One, sem býður upp á að fólk gerist mánaðarlegir áskrifendur að stafrænu geymsluplássi.
Í dag kosta 100 gígabæt af plássi tæpa tvo bandaríkjadali á mánuði í Google One og svo er hægt að gerast áskrifandi að stærri pökkum fyrir meiri pening, alla leið upp í að greiða tæpa 150 dali á mánuði fyrir 30 terabæta áskrift, en 30 terabæti eru 30.000 gígabæti.