Rétt eins og í síðustu viku gleðst heimsbyggðin í dag yfir góðum tíðindum af bóluefni gegn COVID-19. Fyrirtækið Moderna, sem er eitt þeirra sem fékk þróunarfé úr „Operation Warp Speed“-verkefninu sem Bandaríkjastjórn setti á laggirnar til þess að flýta þróuninni, gaf út í dag að bóluefni þess hefði sýnt fram á 94,5 prósent virkni gegn COVID-19.
Tíðindin frá Moderna eru jafnvel enn gleðilegri en þau sem bárust af bóluefnisþróun Pfizer og BioNTech í síðustu viku, sem einnig sýndi fram á yfir 90 prósent virkni. Fyrir því eru tvær lykilástæður.
1. Gefur til kynna að aðferðin virki
Rétt eins og bóluefni Pfizer og BioNTech notast Moderna við genaupplýsingar (mRNA) fyrir svokölluð gaddprótein sem er að finna á yfirborði kórónuveirunnar, SARS-CoV-2. Þegar bóluefninu er sprautað í einstaklinga byrja frumur líkamans þannig að framleiða sín eigin gaddprótein og þjálfa sig í að takast á við veiruna.
Ónæmiskerfið lítur á gaddpróteinin sem framandi fyrirbæri og tekur til varna með því að framleiða mótefni og T-frumur, sem gera kórónuveirunni erfiðara um vik við að valda bólusettum skaða.
Í niðurstöðum Moderna kemur fram að 90 einstaklingar sem fengu lyfleysu hafi nú smitast af COVID-19, en einungis 5 sem voru sprautaðir með bóluefninu, af alls 30 þátttakendum í tilraunum fyrirtækisins. Ellefu af þessum 95 veiktust alvarlega og allir voru þeir í lyfleysuhópnum.
Að tvö fyrirtæki sem eru að beita þessari sömu aðferð, sem hefur aldrei áður verið beitt við þróun bóluefna fyrir manneskjur, nái bæði afbragðsgóðum árangri í umfangsmiklum tilraunum á samanburðarhópum, er afar jákvætt.
2. Minna vesen að geyma og dreifa
Einnig er ástæða til að gleðjast yfir því, varðandi bóluefni Moderna, að það þarf ekki að geyma við jafn ofboðslegan kulda og bóluefni Pfizer og BioNTech.
Hið síðarnefnda er sagt þurfa að geymast við allt að -80°C, sem þýðir að það þyrfti að flytja í sérútbúnum kælitækjum á milli staða, á meðan að bóluefni Moderna er sagt geymast vel við hærra hitastig og síðan í allt að mánuð við 2-4 gráður, sem er um það bil sama hitastig og í ísskápnum heima hjá okkur flestum.
Dýrt og Bandaríkin njóta forgangs
Þó er vakin athygli á því, í umfjöllun Guardian um tíðindin í dag, að búist sé við að verðmiðinn á hverjum skammti af Moderna-bóluefninu verði hærri en á öðrum bóluefnum, eða jafnvel 37 dollarar hver skammtur. Á meðan stefnir Johnson & Johnson á að bóluefni þeirra kosti 10 dollara skammturinn og Pfizer er að horfa á 20 dollara sem viðmiðunarverð.
Bóluefnið gæti því orðið of dýrt til þess að vera fýsilegur eða raunhæfur kostur fyrir fátækari ríki, jafnvel eftir að bóluefnissjóður Sameinuðu þjóðanna (UN Covax) hefur komið að borðinu með niðurgreiðslu. Moderna hefur reyndar gefið það út að það muni ekki skrá einkaleyfi á bóluefnið fyrr en faraldurinn er yfirstaðinn, sem þýðir að það gæti verið hægt að framleiða það á ódýrari hátt.
Einnig er vert að hafa í huga að þar sem Moderna fékk tæplega tvo og hálfan milljarð bandaríkjadala frá bandarískum stjórnvöldum í þeim tilgangi að þróa þetta bóluefni, verður áherslan á dreifingu í Bandaríkjunum til að byrja með og búist er við 20 milljón skammtar gætu verið tilbúnir fyrir lok ársins 2020. Afgangurinn af heiminum mun þurfa að bíða að sinni.