Ríkisstjórnin mun afnema gjaldtöku fyrir sýnatöku á landamærunum fyrir COVID-19 frá og með 1. desember, en hún ræddi málið á ríkisstjórnarfundi í morgun. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.
Í fréttinni var rætt við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, en samkvæmt henni hefur ríkisstjórnin þegar tekið ákvörðun um málið. Ákvörðunin væri tekin til að tryggja að það væri engin fjárhagsleg fyrirstaða fyrir því að fólk fari í skimun, en Katrín segir að fundið hafi verið fyrir því að fólk velji ekki skimun. „Það eru tæp 3% sem hafa valið 14 daga sóttkví umfram skimun en með þessu munum við tryggja að það sé að minnsta kosti ekki af fjárhagslegum hvötum,“ sagði forsætisráðherrann.
Hingað til hafa engir hagfræðingar á vegum ríkisstjórnarinnar opinberlega mælt með afnámi gjaldtöku á sýnatöku á landamærunum. Í minnisblaði sem skilað var til fjármálaráðherra fyrr í mánuðinum var lagt efnahagslegt mat á tillögum að breyttum aðgerðum á landamærunum, en þar kom fram að ekki væri að merkja áhrif af kostnaði við sýnatöku í Keflavík síðastliðið sumar.
Samkvæmt Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands nam samfélagslegur kostnaður hvers komufarþega til landsins í sumar að minnsta kosti 80 þúsund krónum, þar sem þeir auka smithættu og þar með líkurnar á að beita þurfi hörðum sóttvarnaraðgerðum.
Tinna Laufey segir því að sýnatakan á landamærunum sé nú þegar niðurgreidd af hinu opinbera, þar sem komufarþegar bera ekki allan kostnaðinn og áhættuna af skimuninni sjálfri. Þess vegna ætti gjaldið að vera mun hærra en 15 þúsund krónur, að mati prófessorsins.