Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að meginvextir bankans verði 0,75 prósent, og því lækka þeir um 0,25 prósent frá því sem áður var. Vextir hafa verið lækkaðir fjórum sinnum frá því að yfirstandandi efnahagsástand vegna COVID-19 faraldursins hófst, og alls hafa stýrivextir lækkað um fjögur prósentustig frá því í maí í fyrra.
Vextirnir lækkuðu síðar í maí, þegar þeir voru lækkaðir um 0,75 prósentustig niður í eitt prósent.
Vextirnir nú, 0,75 prósent, eru lægstu meginvextir sem Seðlabanki Íslands hefur nokkru sinni boðið upp á.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að mikil fjölgun COVID-19-smita á haustdögum og hertar sóttvarnir valdi því að dregið hefur úr þeirri viðspyrnu í efnahagslífinu sem hófst á þriðja fjórðungi ársins eftir sögulegan samdrátt á öðrum ársfjórðungi. „Efnahagshorfur hafa því versnað og gerir nóvemberspá Peningamála ráð fyrir 8,5 prósent samdrætti landsframleiðslu á þessu ári sem er ríflega 1 prósentu meiri samdráttur en spáð var í ágúst. Einnig er spáð minni hagvexti á næsta ári. Óvissa um efnahagshorfur er mikil og mun þróun efnahagsmála að töluverðu leyti ráðast af framvindu farsóttarinnar.“
Mikill þrýstingur hefur verið á Seðlabankann að kaupa ríkisskuldabréf af meiri þrótti, líkt og hann boðaði að yrði gert í vor. Ástæðan er meðal annars sú að ávöxtunarkrafa langra verðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur hækkað, sem hefur aftur leitt til vaxtahækanna.
Sú aðgerð kallast magnbundin íhlutun (e. quantitative easing) og hefur hún verið notuð af seðlabönkum víða um heiminn til að örva fjárfestingar og lántöku með því að færa langtímavexti niður. Í apríl tilkynnti bankinn að hann ætlaði að kaupa bréf fyrir allt að 150 milljarða króna. Af þessum 150 milljörðum tilkynnti bankinn að hann gæti keypt fyrir allt að 60 milljörðum króna á þessu ári, eða fyrir allt að 20 milljörðum á hverjum ársfjórðungi í mesta lagi.
Hins vegar hefur lítið orðið af þeim kaupum hingað til. Á milli apríl- og júnímánaðar keypti Seðlabankinn ríkisskuldabréf fyrir einungis tæplega 900 milljónir króna og á þriðja ársfjórðungi keypti hann ekkert. Samkvæmt efnahagsreikningi Seðlabankans virðist hann svo hafa selt ríkisskuldabréf í síðasta mánuði, þar sem ríkisskuldabréfaeign hans minnkaði um 40 milljónir króna.
Kaupin hafa verið aukin á undanförnum vikum og Kjarninn greindi frá því á mánudag að frá 9. október og til þess hefði bankinn keypt fyrir rúma 1,5 milljarða í ríkisskuldabréfum með gjalddaga árið 2028 og 2031 (RIKB28 og RIKB31).
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í dag segir að hún muni áfram „nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða, m.a. kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum, til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.“