Um 1 prósent mannkyns báru árið 2018 ábyrgð á helmingi allrar losunar gróðurhúsalofttegunda frá flugi. Þetta eru þeir sem fljúga mjög oft – mun oftar á ári hverju en flestir gera á allri sinni ævi.
Þeir eru kallaðir ofur-losarar (e. super emitters), flugfarþegarnir sem fljúga svo oft að aðeins eitt prósent þeirra valda losun helmings allra gróðurhúsalofttegunda frá flugi. Þannig var það árið 2018 en við vitum að þannig verður það ekki þegar árið 2020 verður gert upp. En í nýrri rannsókn sem sænskir vísindamenn leiddu er stuðst við gögn um mengun og farþegafjölda í flugi frá árinu 2018 og niðurstaðan gefur vísbendingu um hvað kann að gerast eftir faraldur COVID-19, ef lífsstíll fólks breytist ekki umtalsvert.
Aðeins 11 prósent jarðarbúa flugu með flugvél árið 2018. Og aðeins 4 prósent þeirra flugu til útlanda. Þegar litið er á hvert land fyrir sig má sjá að það eru Bandarískir flugfarþegar sem skilja eftir sig stærsta kolefnissporið. Reyndar er losun þeirra vegna flugferða meiri en losun flugfarþega tíu næstu ríkjanna þar á eftir.
Vísindamennirnir segja að rannsóknin leiði í ljós að fámennur forréttindahópur, sem fljúgi ótt og títt, hafi mikil áhrif á loftslag jarðar – áhrif sem allir jarðarbúar finna fyrir.
Í ár hefur kórónuveiran sett strik í reikning margra og yfir 50 prósent samdráttur hefur orðið í farþegaflugi. Þessa stöðu telja vísindamennirnir vera kjörið tækifæri til að endurskoða ýmislegt sem snýr að flugi og mæla þeir m.a. með því að ríkisstjórnir heimsins setji skilyrði er lúta að loftslagsmálum í þeim ríkisstuðningi sem að flugfélögum er réttur. Þannig megi rétta kúrsinn í fluggeiranum; gera hann samkeppnishæfari og sjálfbærari.
Á milli áranna 2013-2018 jókst losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi um 32 prósent. Þó að gríðarlegur samdráttur sé nú í flugi hafa flugfélög sett sér markmið um að komast í samt horf og fyrir faraldurinn jafnvel þegar árið 2024.
„Ef við viljum leysa loftslagsvandann þurfum við að endurhanna flugsamgöngur,“ segir Stefan Gössling, prófessor við Linnéu-háskóla í Svíþjóð og aðalhöfundur rannsóknarinnar. „Og þá þurfum við að byrja á toppnum – þar sem fáir ofur-losarar hafa gríðarleg áhrif.“ Hann segir í viðtali við Guardian að ríkir íbúar jarðar hafi haft allt of mikið frelsi til að hanna jörðina eins og þeim sýnist. „Við ættum að sjá þá krísu sem við erum núna í sem tækifæri til að draga saman í flugferðum.“
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar nýverið í vísindatímaritinu Global Environmental Change.