Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir stöðu flokks síns á höfuðborgarsvæðinu vera alvarlega. Þetta kemur fram í viðtali við hann í hlaðvarpinu Arnarhóli, þar sem hann var spurður út í nýlega birta umfjöllun Kjarnans á fylgi Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu byggða á síðustu tveimur könnunum MMR.
Samkvæmt þeim er fylgi flokksins á svæðinu, þar sem um ⅔ hluta landsmanna búa, 5,9 prósent. Það er minna fylgi en Miðflokkurinn og Vinstri græn og aðeins rétt meira fylgi en Sósíalistaflokkur Íslands, sem hefur aldrei boðið fram til þingkosninga og á eftir að kynna hverjir verða í framboði fyrir flokkinn í næstu kosningum, á höfuðborgarsvæðinu.Willum segir að Framsóknarflokknum hafi ekki tekist að tala nægilega skýrt fyrir borgaralegum málefnum, en til höfuðborgarsvæðisins teljast stærstu þéttbýliskjarnar landsins innan þriggja stærstu kjördæma þess. Það sjáist til að mynda á því að flokkurinn náði ekki inn manni í síðustu borgarstjórnarkosningum, þegar hann fékk 3,2 prósent atkvæða. Hann er með sitthvorn fulltrúann í sveitarstjórnum Kópavogs og Hafnarfjarðar og einungis tvo af 35 þingmönnum höfuðborgarsvæðisins. Willum er annar þeirra og Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, er hinn.
Að sögn Willums þarf að horfast í augu við þessa þróun og breyta henni. „Við þurfum að virkja ungt fólk. Ég held að Framsóknarflokkurinn eigi að geta höfðað til ungs fólks og við erum með mjög flott ungt fólk núna í grasrótinni sem ég bind miklar vonir við að takist að safna ungu fólki sem að takist þetta. Við þessi sem að eldri erum, þótt ég sé ungur í pólitík, þá kannski erum við fastari í forminu en svo að við getum höfðað til unga fólksins með jafn trúverðugum hætti og unga fólkið sjálft.“
5,9 prósent fylgi á höfuðborgarsvæðinu
Í gögnum MMR sem sýna meðaltalsstöðu Framsóknarflokksins úr síðustu tveimur könnunum fyrirtækisins eftir ýmsum bakgrunnsbreytum kemur fram að heilt yfir virðist flokkurinn á svipuðum slóðum og í síðustu kosningum. Fylgi við hann mælist 10,1 prósent og hann er sá stjórnarflokkur sem hefur tapað minnstu fylgi á ríkisstjórnarsamstarfinu.
Flokkurinn hefur styrkt stöðu sína á Norðurlandi, Austurlandi, Suðurlandi og á Suðurnesjunum frá könnunum sem gerðar voru í kringum síðustu kosningar sem fram fóru haustið 2017.
Vandi einkarekinna fjölmiðla óumdeildur
Í viðtalinu ræðir Willum ýmis önnur mál, til að mynda stöðuna á íslenskum fjölmiðlamarkaði, en mennta- og menningarmálaráðherra, samflokkskona hans, hefur ítrekað og án árangurs reynt að leggja fram frumvarp til að koma á mót stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla. Ástæðan hefur verið andstaða á meðal hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks sem hafa barist hart gegn málinu.
Nýverið var greint frá því í Morgunblaðinu að til stæði að skoða nýjar leiðir í stuðningi við fjölmiðla og að þar yrði skattkerfið notað. Heimildir Kjarnans herma að þar sem verið að kanna útfærslu á afslætti eða endurgreiðslu á tryggingagjaldi. Það í samræmi við frumvarp sem Óli Björn Kárason og þrír aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokks lögðu fram í desember í fyrra til að undirstrika andstöðu sína við fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra.
Willum segir í viðtalinu að honum finnist blasa við að stjórnmálamenn, og hann þar með talinn, finni sanngjarna lausn á þessari stöðu. „Vandi einkarekinna fjölmiðla er óumdeildur. Meðal annars vegna þess að RÚV er ráðandi á auglýsingamarkaði.“
Það sé ekki vilji hans að opinbert fyrirtæki hafi ráðandi stöðu á neinum markaði. „Það hlýtur að vera lang mesta sanngirni í því að RÚV fari af auglýsingamarkaði og hreinlega á fjárlög.“
Ein lausn sem gæti verið í stöðunni sé að halda RÚV á auglýsingamarkaði en að tekjunum af því væri dreift á alla miðla.