Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar var ómyrkur í máli er hann ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi í gærkvöldi um stöðu kórónuveirufaraldursins í landinu. „Umgangist einungis þá sem þið búið með. Ef þið búið ein, veljið einn eða að hámarki tvo vini til þess að hitta. En haldið áfram að virða fjarlægðarmörk,“ sagði Löfven meðal annars í ávarpi sínu.
Hann hvatti landsmenn til að sýna ábyrgð í verki og slá öllu á frest sem ekki sem ekki þyrfti nauðsynlega að gera. Það hvernig landsmenn myndu bregðast við tilmælum nú myndi hafa afleiðingar síðar, meðal annars á hvernig jólahaldið yrði. Og á það hverjir yrðu ennþá lifandi um jólin.
„Þetta hljómar kannski harkalega. Ef til vill hrottalega. En raunveruleikinn er einmitt svona harkalegur og hrottalegur,“ sagði Löfven í ávarpi sínu, sem var hans annað sjónvarpsávarp um kórónuveirufaraldurinn á árinu. Slík ávörp forsætisráðherra eru afar fátíð, en fyrir veirufaraldurinn höfðu sænskir forsætisráðherrar einungis tvívegis ávarpað þjóðina utan hefðbundinna ávarpa á hátíðisdögum.
Faraldurinn hefur verið í örum vexti í Svíþjóð undanfarnar vikur og í síðustu viku brugðust yfirvöld við með því að lækka fjölda þeirra sem mættu koma saman á opinberum fjöldasamkomum niður í átta manns. Þessar reglur taka formlega gildi á morgun, 24. nóvember.
Sænsku sýslurnar, sem hafa mikið um það að segja hvernig takmörkunum er framfylgt innan þeirra sýslumarka, hafa allar í sameiningu ákveðið að taka upp átta manna samkomutakmarkanir á viðburðum þar sem gestir eru sitjandi, eins og til dæmis á íþróttaviðburðum. Eina undantekningin eru jarðarfarir, en í þær mega 20 manns mæta að hámarki.
Stjórnarskráin skóp „sænsku leiðina“
Þessar reglur gilda þó ekki um starfsemi fyrirtækja né einkaviðburði nema þeir séu leyfisskyldir hjá opinberum aðilum. Verslanir, líkamsræktarstöðvar og veitingastaðir þurfa þannig ekki að fara eftir þessum stífu fjöldatakmörkunum, þrátt fyrir að mælst sé til þess að allir sýni ábyrgð og fari ekki á slíka staði.
Það er sænska leiðin, að segja fólki til í stað þess að beita valdboði sem við liggja refsingar eins og flestar aðrar þjóðir Evrópu. Ástæðan er sænska stjórnarskráin. Hún er í reynd lykillinn að sænsku leiðinni og hefur verið það allt frá því að veiran fór að láta á sér kræla. Hún bindur hendur sænskra yfirvalda í raun að nokkru leyti í glímunni við veiruna.
Þetta hefur ekki verið fyrirferðamikið í fréttaflutningi af viðbrögðum Svía, hvorki í alþjóðapressunni, sem hefur ýmist lofsamað eða lastað sænsku leiðina, né heldur innanlands í Svíþjóð, þrátt fyrir að hlutverk stjórnarskrárinnar hafi reyndar verið útskýrt í innslagi sænska sjónvarpsins SVT fyrir skemmstu.
Í stuttu máli sagt þá er enginn grundvöllur í stjórnarskrá landsins fyrir nokkru sem kallast gæti „lockdown“ nema Svíþjóð sé í stríði. Sænska stjórnarskráin tryggir nefnilega öllum sænskum ríkisborgurum frjálsa för innan landamæra konungsríkisins og kemur sömuleiðis í veg fyrir að stjórnvöld lýsi yfir neyðarstigi innanlands nema stríðsástand ríki.
Nánar má fræðast um þetta í grein sem Lars Jonung, prófessor í hagfræði við Háskólann í Lundi, skrifaði um hlutverk stjórnarskrárinnar í viðbrögðum Svía við veirunni í vefritið VoxEU fyrr á árinu.
Smit eða grunur um smit á elli- eða hjúkrunarheimilum í 93 af 290 sveitarfélögum
Fjöldi smita hefur sem áður segir aukist hratt í Svíþjóð undanfarnar vikur og dauðsföllum hefur einnig fjölgað, þrátt fyrir að staðan sé ekki orðin neitt í líkingu við það þegar fyrsta bylgjan reið yfir með tilliti til sjúkrahúsinnlagna og dauðsfalla. Þá var staðan víða þung á hjúkrunarheimilum og illa gekk að koma í veg fyrir að smit bærust til viðkvæmra hópa sem þar voru.
Sænska útvarpið SR segir frá því í dag að víða í Svíþjóð, eða í alls 93 af 290 sveitarfélögum landsins, séu nú ýmist staðfest COVID-19 smit eða grunur um smit inni á elli- eða hjúkrunarheimilum sem eru rekin af hinu opinbera. Átta sveitarfélög segja stöðuna alvarlega og ekki undir stjórn, en 46 sveitarfélög segja stöðuna alvarlega þrátt fyrir að þau hafi stjórn á útbreiðslu smitanna.