„Ég held að í fyrsta lagi hafi menn ekkert almennilega vitað hvað þeir voru að tala um þegar þeir voru að tala um sænsku leiðina,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, í nýlegu viðtali í hlaðvarpsþættinum Ein pæling, sem er undir stjórn Þórarins Hjartarsonar.
Þar var farið um víða völl í umræðum um COVID-19 og þeir og Þórólfur og Þórarinn ræddu meðal annars um „sænsku leiðina“ og hjarðónæmishugmyndir á borð við þær sem felast í Great Barrington-yfirlýsingunni svokölluðu. Einnig um málflutning af sama meiði sem hópur hér á landi, sem í eru meðal annarra tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks, hefur reynt að koma inn í umræðuna á undanförnum vikum.
Þórólfur sagði að í Barrington-yfirlýsingunni og málflutningi bæði Sigríðar Á. Andersen og Brynjars Níelssonar skorti upp á að tekið væri með í reikninginn hvaða áhrif það myndi hafa að leyfa faraldrinum að ganga yfir landið í auknum mæli. Einnig væri ekki horft til þess hversu mikið er nú þegar búið að gera til þess að koma í veg fyrir að veiran berist til viðkvæmra hópa í samfélaginu og sagði Þórólfur að erfitt væri að gera meira í því skyni, veiran myndi leka inn á viðkvæmar stofnanir ef smit væri útbreitt í samfélaginu.
Ekkert bolmagn til að takast á við útbreitt smit
Þórólfur tók dæmi í þættinum og sagði að ef ekki nema 10 prósent þjóðarinnar myndu smitast á skömmum tíma eftir að hömlum væri aflétt væru það 36 þúsund manns. „Með sömu hlutfallstölum og við erum með eftir 15. júní [...] myndi það þýða að um 2.000 manns myndu þurfa að leggjast inn á spítala vegna COVID, á bara nokkrum vikum. Það myndi þýða að 200 manns myndu þurfa að leggjast inn á gjörgæsludeild á nokkrum vikum, það myndi þýða að 70 manns myndu þurfa að fara í öndunarvél og þýða það að 200 manns myndu látast á bara nokkrum vikum,“ sagði Þórólfur og bætti því við að spítalar landsins hefðu hvorki bolmagn né getu til að ráða við þessa stöðu, kæmi hún upp.
„Það sást bara núna að spítalinn var næstum því kominn á hliðina í þessum litla faraldri sem hefur gengið yfir núna undanfarið. Þetta myndi þýða mjög alvarlegar afleiðingar. Það þyrfti að fara að leggja þessa COVID-sjúklinga inn á aðrar stofnanir eða íþróttahús, hótel. Hvar ættum við að fá fólk til að sinna þeim?“ spurði Þórólfur.
Hann bætti við: „Erum við með nóg af öndunarvélum? Nei. Erum við með nóg af góðu starfsfólki til að sinna þessu fólki? Nei. Þetta myndi hafa gríðarleg áhrif á COVID-sjúklinga og þetta myndi líka hafa gríðarlega áhrif á aðra sjúklingahópa sem þurfa sérhæfða þjónustu inni á spítölunum. Þetta myndi hafa svakalega mikil áhrif í samfélaginu öllu,“ sem sagði að það vantaði algjörlega að þeir sem kæmu fram með gagnrýni á sóttvarnaraðgerðir horfðu til þessara þátta.
Viðtalið við Þórólf birtist í hlaðvarpsveitum síðasta föstudag og var nokkuð beinskeytt, þar sem þáttastjórnandinn velti því upp hvort lækningin væri að verða verri en sjúkdómurinn og vildi fá sóttvarnalækninn til þess að verja það sem hefur verið gert hér á landi til að bregðast við faraldrinum og svara þeirri gagnrýni sem hjarðónæmis-sinnar hafa sett fram gagnvart sóttvarnaráðstafanir hér á landi og erlendis.
Svíar ekki að eltast við hjarðónæmi
Byrjað var á að ræða sænsku leiðina svokölluðu, sem þáttastjórnandi sagðist hafa heillast af í vor, þar sem almenningur hefði verið beðinn um að taka ábyrgð á sínum eigin persónulegu sóttvörnum, þrátt fyrir að nú væri verið að fara í harðari aðgerðir í Svíþjóð. Þórólfur sagði, eins og áður segir, að hann teldi marga hafa rangan skilning á því hvað „sænska leiðin“ væri.
„Ég held að menn hafi talið að Svíar væru að gera sem minnst og menn hafi verið að flýta sér að ná svokölluðu hjarðónæmi, sem þýðir að menn væru að ná því að 60-70 prósent af þjóðinni myndi sýkjast, og þá myndi nást þetta hjarðónæmi sem þýddi það að [faraldurinn] myndi stoppa. Þetta hefur ekkert verið þannig í Svíþjóð. Það hafa verið takmarkanir,“ sagði Þórólfur og minnti á að lengi hefðu verið 50 manna samkomutakmarkanir í Svíþjóð, en í gær tóku þar reyndar gildi 8 manna samkomutakmarkanir á opinberum viðburðum.
„Menn hafa held ég misskilið þetta aðeins,“ sagði Þórólfur, en þó væri ljóst að ýmislegt hefði verið gert öðruvísi í Svíþjóð en á Íslandi. Svíar hefðu til dæmis ekki verið að rekja smit né prófa marga fyrir veirunni í upphafi faraldursins og hefðu ekki lokað landamærum sínum.
„Fólk fékk ekki próf, jafnvel inni á spítölum, og það var svolítill munur. Núna eru Svíar upp á síðkastið að fikra sig meira inn á þetta að gera þetta svona, en ég held að það sé bara í faraldsfræðinni, þá er þetta of seint, þegar faraldurinn er kominn á blússandi siglingu mun árangurinn ekki verða jafn marktækur og sjáanlegur og þegar þú grípur til þessara aðgerða strax í byrjun,“ sagði Þórólfur.
Mikil gagnrýni á nálgunina í Svíþjóð
„Þeir voru mjög harðir á því í byrjun Svíarnir – og ég ætla nú að passa mig að vera ekki með dóma yfir það sem aðrir eru að gera því maður þekkir ekki nógu vel hvað menn eru að gera og forsendurnar – en þeir voru dálítið harðir á því í byrjun að tala um að þetta væri ekkert alvarlegur faraldur og ekki alvarlegri en venjuleg inflúensa og svoleiðis,“ sagði Þórólfur og bætti að hann teldi að „annað hafi nú komið upp á teninginn“.
„Þetta er bæði útbreiddara og töluvert alvarlegri sýking heldur en venjuleg inflúensa. Það hefur verið töluvert mikil gagnrýni á þetta innan Svíþjóðar, á þessa aðferðafræði og nálgun, það hafa verið smitsjúkdómalæknar sem hafa gagnrýnt þetta mjög harðlega og það kann að vera að stjórnvöld séu að hlusta á það meira, en hins vegar hefur Anders Tegnell kollegi minn alveg haldið í sína stefnu og staðið sig vel í því í sjálfu sér,“ sagði Þórólfur.
Auðvelt að sitja heima og búa til einhvern útópíuheim
Þórólfur sagðist telja það óraunhæft að verja viðkvæma hópa með þeirri „markvissu vernd“ sem boðuð var af höfundum Great Barrington-yfirlýsingarinnar og ýmsir hérlendis hafa tekið upp á sína arma og talað fyrir.
„Þetta er ekki þannig að þú getir bara látið smit ganga yfir þá sem að þola það mjög vel. Þú veist það ekkert fyrirfram,“ sagði Þórólfur og minnti jafnframt á að það væri að koma betur og betur í ljós að „þessi COVID-sýking getur haft alvarlegar langtímaafleiðingar fyrir einstaklinga sem jafnvel sýktust ekkert alvarlega og þurftu ekki að leggjast inn á spítala.“
„Við höfum verið að loka og vernda þessa viðkvæmustu hópa, eins og á hjúkrunarheimilinum og búin að leggja svakalegt „effort“ í það og ég er ekkert viss um að það sé hægt að gera mikið meira til að loka það fólk af.
Ef við fáum mikið smit út í samfélagið þá erum við að smita líka starfsmenn þessara viðkvæmu stofnana, starfsmenn spítalanna sem þurfa að ganga þar vaktir og vinna með alls konar viðkvæma hópa og starfsmenn hjúkrunarheimilanna. Smitið er þannig að margir fá veikina tiltölulega vægt eða einkennalaust en geta samt smitað, þá eru þeir að mæta inn á þessi heimili og áður en þú veist af þá eru smitin komin inn. Ef smitið er mjög útbreitt í samfélaginu þá lekur það bara inn á þessar stofnanir,“ sagði Þórólfur.
„Það er mjög auðvelt að sitja bara einhversstaðar heima og búa til einhvern svona útópíuheim, að nú bara lokum við alla af sem eru viðkvæmir og látum alla hina smitast, en það virkar bara ekki þannig,“ sagði Þórólfur í hlaðvarpsþættinum.