Ef íslensk stjórnvöld ætla að ná því markmiði að á árinu 2029 verði enginn dagur þar sem svifryk af völdum bílaumferðar fer yfir skilgreind heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu þarf að draga verulega úr notkun nagladekkja. Einnig þyrfti bílum að fækka um 15 prósent og þá gæti líka verið til bóta að að auka hörku steinefnis í slitlögum.
Auk þessara langtímaaðgerða væri hægt að beita róttækum skammtímaaðgerðum eins og að banna notkun um það helmings bílaflotans (t.d. þeirra sem eru með númer sem endar á oddatölu) á þeim dögum þar sem loftgæði verða fyrirsjáanlega slæm, eða bleyta götur og lækka umferðarhraða.
Þetta kemur fram í nýlegri rannsóknarskýrslu sem Vegagerðin vakti athygli á í vikunni, en skýrslan var unnin með stuðningi frá Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Rannsóknin var unnin af Brian C. Barr, meistaranema við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, en verkefnastjóri var Hrund Ó. Andradóttir, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að nagladekk séu lang veigamesti þátturinn í myndun svifryks frá umferð á höfuðborgarsvæðinu, en rannsóknin byggir á gögnum sem safnað var við Kauptún í Garðabæ frá október 2017 til apríl 2018.
Aðrir áhrifavaldar í myndun svifryks eru tegund vegyfirborðs, umferðarmagn, umferðarhraði og vegþjónusta, eins og söltun og skolun gatna. En nagladekkin eru lang veigamest, sem áður segir.
Götuþvottur virðist óskilvirk aðferð
Líkanið sem rannsakendur notuðu, svokallað NORTRIP-líkan, sem notað er til að spá fyrir um hlut svifryks í andrúmslofti vegna bílaumferðar, gefur til kynna að hlutur þungaumferðar í svifryksmyndun sé lítill og að götuþvottur sé óskilvirk aðferð.
Í rannsóknarskýrslunni segir þó að niðurstaðan varðandi götuþvottinn sé í ósamræmi við reynslu og rannsóknir erlendis og þetta atriði þyrfti að skoða í frekara framhaldi.
Þyrfti að draga mjög mikið úr nagladekkjanotkun
Líkaninu var beitt til þess að leggja mat á til hvaða aðgerða væri hægt að grípa til þess að ná markmiði stjórnvalda um að það verði engir „gráir dagar“ árið 2029, eða dagar þar sem svifrykið fer yfir heilsuverndarmörk.
Ef gert er ráð fyrir að umferð verði áfram jafn mikil og hún er í dag gefur líkanið til kynna að draga þurfi úr hámarks nagladekkjanotkun á miðjum vetri úr 46 prósentum niður í 15 prósent.
Skýrsluhöfundar benda á að slík lækkun væri róttæk í sögulegu samhengi, þar sem lægsta meðalhlutfall nagladekkja á götunni hafi mælst 23 prósent veturna 2011-2012 og 2013-2014 og hafði þá lækkað úr 42 prósent á áratug.
Í skýrslunni segir að það þurfi fjölþættar aðgerðir til að minnka svifryksmengun, bæði skammtíma aðgerðir til að bregðast við fyrirsjáanlegri mengun á svokölluðum gráum dögum og hins vegar langtíma aðgerðir til að draga úr allri umferðartengdri loftmengun, eins og rakið var í upphafi greinarinnar.
Stofnvegir voru þvegnir þrisvar í ár
Í umfjöllun um rannsóknarskýrsluna á vef Vegagerðarinnar segir að þeir stofnvegir á höfuðborgarsvæðinu þar sem Vegagerðin er veghaldari séu þvegnir reglulega. Þar er um að ræða götur á borð við Kringlumýrarbraut, Sæbraut, Miklubraut, Hringbraut og Reykjanesbraut.
Haft er eftir Bjarna Stefánssyni forstöðumanni umsjónardeildar suðursvæðis Vegagerðarinnar að göturnar hafi verið þvegnar þrisvar í ár, í vor, sumar og haust. Þá sé Vegagerðin í samstarfi við Reykjavíkurborg um að rykbinda göturnar sérstaklega þegar stefnir í að svifryk verði yfir mörkum. Reykjavíkurborg hefur þá frumkvæði og kallar út verktaka þegar aðgerða er þörf.