„Það er auðvitað góð spurning,“ svarar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri spurður um hvort nóg hafi verið að gert í viðbrögðum borgarinnar gagnvart eftirlifendum brunans á Bræðraborgarstíg. Í úttekt Kjarnans á eldsvoðanum kom fram að sumum þeirra sem lifðu af hafi þótt viðbrögðin tilviljanakennd og þeir upplifað vonbrigði með að fá ekki meiri aðstoð og stuðning. Flestir sem bjuggu í húsinu sem brann voru útlendingar sem margir hverjir áttu lítið stuðningsnet hér á landi.
„Rauði krossinn veitir fyrstu hjálp og hefur verið í frábæru samstarfi við slökkviliðið í mörgum brunum árum saman,“ segir borgarstjóri m.a. í viðtali við Kjarnann um eldsvoðann. „Þeir hafa þó allir verið minni og ekki eins afdrifaríkir. Það sem gerist yfirleitt í eldsvoðum á Íslandi er að eftir fyrstu hjálp í sólarhring eða tvo er fólk gripið af sínu félagslega neti í samfélaginu. En í þessu tilviki var því ekki til að dreifa. Þannig að Þjónustumiðstöð miðborgar steig inn á virkari hátt en í öðrum brunum og veitti meiri aðstoð, til dæmis húsnæðisstuðning í tvær vikur, og reyndi að komast í samband við alla. Það hefði verið mjög gott að gera það strax í upphafi og átta sig fyrr á því að þessi bruni væri öðruvísi en aðrir. En ég fann mjög sterkt fyrir því að þjónustumiðstöðin var að reyna að gera sitt allra besta.“
Dagur hefur hins vegar átt fund með eftirlifendum úr brunanum sem fannst þetta ekki viðbrögðin ekki nógu skipulögð og hefðu viljað finna fyrir þéttari stuðningi og meira samtali strax frá upphafi. „Og það er eitthvað sem við verðum að taka til okkar. Við verðum að tryggja að aðstæður séu metnar hverju sinni og koma inn með þann stuðning sem þarf að teknu tilliti til aðstæðna þeirra sem í hlut eiga.“
Þjónustumiðstöðin bauð þeim íbúum hússins sem hún náði í gistingu á gistiheimili í tvær vikur eða andvirði slíkrar gistingar. Þá var einnig veitt neyðaraðstoð varðandi lyfjakaup og aðrar nauðsynjar. Sú upphæð nam um 20 þúsund krónum. Í úttekt Kjarnans er m.a. gagnrýnt að þjónusta borgarinnar hafi ekki tekið við um leið og neyðaraðstoð Rauða krossins sleppti. Töldu viðmælendur Kjarnans það m.a. helgast af því að bruninn varð á fimmtudegi og þjónustumiðstöðin lokuð um helgar. Þá er ljóst að starfsmenn þjónustumiðstöðvarinnar náðu ekki í alla sem bjuggu í húsinu, m.a. vegna þess að lögheimilisskráning í því var mjög villandi.
„Það sem við verðum líka að hafa í huga,“ segir borgarstjóri, „er að flestir sem bjuggu á Bræðraborgarstíg 1 voru vinnandi fólk sem er ekki vant því að leita sér aðstoðar eða stuðnings frá hinu opinbera og vita jafnvel ekki hvert það á að snúa sér. Eitthvað sem við gerum kannski of mikið ráð fyrir að allir viti í íslensku samfélagi. Þá þurfum við að vera fljót á vettvang og kynna okkar stuðningskerfi.“
Spurður hvort að hann telji ástæðu til að fara yfir viðbrögð borgarinnar gagnvart eftirlifendum og jafnvel veita þeim einhverja frekari aðstoð segir Dagur að það hafi einmitt verið ákveðið að gera á fundi ýmissa viðbragðsaðila í haust sem haldinn var í kjölfar fundar hans með einum eftirlifenda. „Þjónustumiðstöð miðborgar fór strax í það mál. Við erum meðvituð um það að sumt fólkið þarf aðstoð. Sumt hefur fengið stuðning frá sínum stéttarfélögum sem ég er mjög ánægður með. Annað, eins og sálfræðiþjónustu, er hægt að sækja í gegnum heilsugæsluna. Það sem ég held að við verðum að velta fyrir okkur er hvernig við tryggjum að við atburði sem þessa þá komum við markvisst upplýsingum til fólks sem ekki er vant að þurfa á þjónustu að halda. Við sem samfélag þurfum í mínum huga að passa upp á að fólk sem á ekki stuðningsnet hér eða þekkir ekki hefðbundnar leiðir eða sinn rétt á auknum stuðningi fái upplýsingar um hann.“
Hér má nálgast viðtalið við borgarstjórann í heild.