Halldór Gunnarsson frá Holti, sem situr í flokksráði Miðflokksins, telur flokkinn ekki geta náð í ríkisstjórn eftir næstu kosningar ef Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi varaformaður Miðflokksins og formaður þingflokks hans, verður í framboði fyrir hann haustið 2021.
Flokksráð Miðflokksins fer með æðsta vald í málefnum hans milli landsþinga.
Í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag veltur Halldór fyrir sér tilgangi þess að Miðflokkurinn hélt aukalandsþing um síðustu helgi, en þar var embætti varaformanns lagt niður og starfsskyldur hans færðar til þingflokksformanns. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hafði tilkynnt framboð til varaformanns áður en þetta var ákveðið. Starfsskyldur varaformanns héldust því hjá Gunnari Braga og Halldór veltir því fyrir sér hvort það leikurinn hafi verið gerður til þess að „viðhalda samt óbreyttri stöðu Gunnars“.
Halldór segir í greininni að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafi skilgreint stefnu og helstu áherslur flokksins í ræðu á landsþinginu. Þar hafi komið fram að flokkurinn yrði að ná til kjósenda þannig að hann næði stöðu til að komast í næstu ríkisstjórn.
Ef flokkurinn ætti að ná þeirri stöðu sem formaðurinn talaði fyrir yrði hann að ná jafnt til karla og kvenna, sem Halldór telur að Miðflokkurinn muni ekki gera með framboði Gunnars Braga Sveinssonar við næstu alþingiskosningar. „Skoðanakannanir sýna að konur kjósa síst flokkinn. Þetta staðfestir síðasta framboð flokksins til sveitarstjórnar á Austurlandi á sinn hátt. Næstum án undantekningar heyri ég eiginkonur manna hliðhollra Miðflokknum segja við mig: Ég kýs ekki Miðflokkinn ef Gunnar Bragi Sveinsson býður sig fram. Þegar ég spyr um ástæður er svarið það sama, sem ég þarf ekki að endursegja, því allir virðast sammála um ástæðuna.“ Sennilegast er að Halldór sé þar að vísa til Klaustursmálsins, þar sem Gunnar Bragi og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, voru í aðalhlutverki í niðrandi orðræðu um fjölda fólks, aðallega kvenna.
Halldór, sem er fyrrverandi sóknarprestur í Holti, hefur komið víða við á pólitískum ferli sínum. Hann starfaði lengi í Sjálfstæðisflokknum og bauð sig fram gegn Bjarna Benediktssyni í formannsslag árið 2013, en fékk einungis tvö prósent atkvæða. Þá starfaði hann innan Flokks fólksins en fylgdi þeim Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni þaðan og yfir til Miðflokksins eftir Klausturmálið.
Mun sterkari á landsbyggðinni en í höfuðborginni
Í fréttaskýringaröð sem Kjarninnbirti nýverið, þar sem farið var yfir bakgrunnsbreytur væntanlegra kjósenda stjórnmálaflokka, kom fram að enginn flokkur hafi sveiflast jafn mikið í fylgi og Miðflokkurinn á yfirstandandi kjörtímabili samkvæmt könnunum MMR.
Eftir að Klausturmálið komst í hámæli fór fylgi flokksins niður í 5,9 prósent en tæpu ári síðan, í kjölfar langvinns málþófs til að tefja fyrir afgreiðslu þriðja orkupakkans svokallaða, náði það sínum hæstu hæðum og mældist 16,9 prósent. Mikil fylgni er milli breytinga á stuðningi við Miðflokkinn annarsvegar og Sjálfstæðisflokkinn hins vegar. Þegar Miðflokkurinn hækkar lækkar Sjálfstæðisflokkurinn, og öfugt. Þetta bendir til þess að flokkarnir séu að fiska í sömu tjörnum eftir kjósendum.
Undanfarið hefur fylgið þó verið rétt undir kjörfylgi. Í síðustu tveimur könnunum MMR hefur meðaltalsfylgið til að mynda mælst 10,3 prósent. Og mikill stöðugleiki er í bakgrunnsbreytum kjósenda flokksins.
Þegar fylgið er borið saman við það sem mældist í tveimur könnunum MMR í kringum síðustu kosningar, þar sem niðurstaðan var nákvæmlega sú sama og í kosningunum 2017 (10,9 prósent), sést að Miðflokknum gengur heldur verr að ná til yngstu kjósendanna nú en þá. Hjá þeim kjósendum sem eru undir þrítugu mælist stuðningur við flokkinn nú 6,1 prósent, en var 9,2 prósent fyrir rúmum þremur árum. Stuðningur í öðrum aldurshópum er hins vegar meira og minna á svipuðu róli, á milli tíu til tólf prósent.
Höfuðborgarsvæðið er áfram sem áður það landsvæði þar sem flokkurinn á erfiðast uppdráttar en fylgi hans þar mælist 7,1 prósent. Til samanburðar mælist það 16,4 til 17,8 prósent á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi.
Menntun og kyn ráðandi breytur
Stuðningur við Miðflokkinn er mjög mismunandi eftir menntunarstigi. Flokkurinn nýtur mestra vinsælda hjá þeim sem hafa mest lokið grunnskólaprófi, en þar mælist fylgi hans 18,4 prósent.
Hjá þeim sem hafa lokið háskólaprófi mælist fylgið hins vegar lítið, eða 5,2 prósent.
Kyn er líka ráðandi breyta þegar kemur að stuðningi við Miðflokkinn. Hann er mun vinsælli hjá körlum en konum. Alls segjast 14 prósent karla að þeir myndu kjósa flokkinn í dag en einungis 5,5 prósent kvenna. Stuðningur á meðal karla hefur aukist lítillega frá 2017 en stuðningur á meðal kvenna hefur dregist saman um þriðjung og er 5,5 prósent.
Tekjur virðast hins vegar ekki skipta máli þegar kjósendur eru að ákveða hvort Miðflokkurinn höfði til þeirra. Þannig segjast 10,2 prósent þeirra sem eru með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði að þeir myndu kjósa flokkinn í dag en níu prósent þeirra sem eru með yfir 1,2 milljónir króna á mánuði í tekjur. Stuðningur hjá þeim tekjuhópum sem eru þar á milli er mjög svipaður, sveiflast frá 9,0 í 10,4 prósent.