Eldar logar á að minnsta kosti fimmtíu stöðum í ástralska fylkinu Nýja Suður-Wales. Slökkviliðsmenn hafa barist við gróðurelda á svæðinu alla helgina í kjölfar hitabylgju og vinda. Þegar mest lét börðust þeir við yfir 200 elda. Mestir voru þeir norðvestur af Sydney og þar eyðilagðist að minnsta kosti eitt hús.
Þó eldar logi enn er talið að slökkvilið hafi náð tökum á þeim flestum. Í bili. Því á morgun, þriðjudag, er búist við að hitastigið nái aftur um 40°C.
Ástandið um helgina hefur vakið erfiðar minningar hjá mörgum Áströlum. Gróðureldar eru árlegir í landinu en í fyrra voru þeir sérstaklega skæðir og „svarta sumarið“, eins og það er kallað, verður lengi í minnum haft.
Fyrstu skógareldar ársins kvikna vanalega um svipað leyti og ástralska vorið gengur í garð – á sama tíma og það fer að hausta hjá okkur á norðurhveli. En í fyrra sköpuðust óvenjuleg skilyrði, með gríðarlegum þurrkum, fyrr en venjulega og þegar í júlí höfðu fyrstu eldarnir kviknað og gróður, þar á meðal fornir skógar, brunnu viðstöðulaust mánuðum saman eða þar til langþráðar haustrigningar hófust.
Mestir voru eldarnir í desember í fyrra og í janúar í ár og áður en yfir lauk höfðu tæplega 19 milljónir hektarar lands brunnið, meira en 5.900 byggingar eyðilagst og að minnsta kosti 34 manneskjur týnt lífi. Vísindamenn telja að um þrír milljarðar hryggdýra hafi drepist, m.a. hundruð milljóna skriðdýra. Kóalabirnir, sem halda til í trjám og flýja í trjákrónur þegar hætta steðjar að, féllu í hrönnum. Að minnsta kosti átta þúsund þeirra drápust sem hafði gríðarleg áhrif á tegundina sem er í útrýmingarhættu. Fágætir páfagaukar týndu einnig tölunni sem og fjöldi annarra sjaldgæfra dýrategunda sem einkenna hið sérstæða dýralíf Ástralíu.
Í frétt Sydney Morning Herald í morgun var haft eftir reyndum slökkviliðsstjóra að þó að tekist hafi að ná tökum á eldunum um helgina hefði getað brugðið til beggja vona og þurr gróðurinn mun valda frekari vanda þegar líður á sumarið.
Annar slökkviliðsstjóri brýnir fyrir fólki að tilkynna elda um leið og það verður þeirra vart. „Ekki ganga út frá því að einhver annar hafi tilkynnt þá,“ segir hann. „Um helgina þá börðumst við með öllu sem við áttum við eldana til að stöðva útbreiðsluna og það tókst. Þannig munum við halda áfram að vinna á morgun en við þurfum hjálp almennings.“
Þó að 5,5 milljónir hektara lands hafi brunnið í Nýja Suður-Wales í fyrra er það aðeins um 7 prósent af landsvæði fylkisins. „Þannig að um 90 prósent fylkisins er enn næmt fyrir eldum,“ hefur Sydney Morning Herald eftir slökkviliðsstjóranum Ron Rogers. Hann segist ekki hafa góða tilfinningu fyrir næstu vikum og mánuðum og óttast hið versta.
Í einhverjum tilfellum leikur grunur á að eldar helgarinnar hafi ekki kviknað af náttúrulegum orsökum og því mun bann við því að kveikja eld taka gildi á morgun.