Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti í dag dóm réttarins í Landsréttarmálinu, en dómur var kveðinn upp kl. 10 í gegnum fjarfundarbúnað með aðilum málsins. Niðurstöðuna má nálgast hér og fréttatilkynningu frá MDE hér.
Niðurstaðan er sú að Guðmundur Andri Ástráðsson, maður sem dæmdur var fyrir umferðarlagabrot í Landsrétti skömmu eftir að millidómsstigið tók til starfa, hefði ekki notið þess að fá úrlausn máls síns fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól.
Yfirdeild dómstólsins, sem skipuð var 17 dómurum, var einróma um að brotið hefði verið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar, þar sem að einn Landsréttardómaranna sem að málinu kom, Arnfríður Einarsdóttir, hefði ekki verið skipuð með lögmætum hætti. Íslenska ríkinu er gert að greiða Guðmundi Andra 20 þúsund evrur í málskostnað.
Áfellisdómur yfir Sigríði Á. Andersen og Alþingi
Dómstóllinn felldi fyrri dóm sinn í málinu 12. mars 2019. Í honum fengu bæði Sigríður Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan fimmtán dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017.
Sigríður fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti. Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig. Sigríður sagði af sér embætti daginn eftir dóminn og óvissa ríkti um starfsemi millidómstigsins í kjölfarið.
Í reynd hafði niðurstaða Mannréttindadómstólsins í för með sér að dómararnir fjórir sem ekki voru á lista hæfisnefndar hafa verið álitnir ófærir um að dæma í réttinum á grundvelli upphaflegar skipunar sinnar, þar sem hún hefði verið ólögleg.
Sú niðurstaða er á skjón við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, sem komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að fyrrverandi dómsmálaráðherra hefði ekki farið að lögum við skipan í dómstólinn, hefði það engin áhrif á stöðu Arnfríðar sem dómara við réttinn.
Íslenska ríkið ákvað í apríl í fyrra að áfrýja niðurstöðunni og beina því til efri deildar dómsins að taka málið aftur fyrir. Á það var fallist og fór málflutningur fyrir yfirdeildinni fram 5. febrúar á þessu ári.
Þrír þeirra fjögurra dómara sem skipaðir voru þrátt fyrir að hafa ekki verið á upphaflegum lista hæfisnefndar hafa hlotið nýja skipan í Landsrétt. Arnfríður Einarsdóttir er þeirra á meðal.
Alvarlegt brot
Í fréttatilkynningu um niðurstöðu yfirdeildarinnar í dag segir að þrátt fyrir Sigríður Á. Andersen hafi sem dómsmálaráðherra verið ósammála mati hæfisnefndarinnar og ákveðið að víkja frá því í tilfelli fjögurra dómara, hefði henni alveg láðst að útskýra af hverju hún gerði það.
Óvissan um ástæðurnar sem lágu að baki hafi vakið upp alvarlegan ótta um óviðeigandi afskipti af dómsvaldinu og valdið vafa um lögmæti ferlisins við skipun dómaranna í Landsrétt.
Það að fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi ekki farið eftir reglunum sem voru í gildi er sérstaklega alvarlegt, að mati yfirdeildarinnar, þar sem hún hafði ítrekað verið minnt á lagalegar skyldur sínar, af lagalegum ráðgjöfum í dómsmálaráðuneytinu, formanni hæfisnefndarinnar og settum ráðuneytisstjóra sínum í ráðuneytinu.
Sigríður sagðist ein bera ábyrgð á því að hafa hagað málum með þeim hætti sem hún gerði í viðtali við Kveik á RÚV í lok janúar árið 2018.
„Ég ætla ekki að draga einhvern hérna sem að þú ætlar síðan að reyna að færa ábyrgðina yfir. Þetta er mitt mat líka. Ég er líka sérfræðingur á þessu sviði. Ég ætla að leyfa mér það og ég tek mínar ákvarðanir byggðar á mínu hyggjuviti. Ég er lögfræðingur eins og ég nefni. Og ég stend fyllilega við þessar ákvarðanir mínar og ég geri það enn þá,“ sagði Sigríður þá.