Frost: 4-18 stig. 23 stig á hálendinu.
Vindur: 13-20 m/s.
Snjókoma. Él. Stórhríð. Hörkufrost. Vindstrengir. Vindkæling. Frost og meira frost. „Ískalt heimskautaloft streymir yfir okkur úr norðri.“
Þegar litið er yfir veðurspár næstu daga má sjá að veðurfræðingum er mikið í mun að við áttum okkur á að þeim er alvara: „Í dag, á morgun og fram á föstudag er semsagt útlit fyrir fyrsta alvöru norðanáhlaup vetrarins,“ skrifar veðurfræðingur Veðurstofunnar í hugleiðingum sínum í morgun. „Ef til vill er þörf á kuldaviðvörun þar sem dúða þarf leikskólabörn sérstaklega á fimmtudag og föstudag (kalt fram á laugardag) og aðrir úti við hugi að skjólgóðu höfuðfati og hlýjum vetrarskóm,“ skrifar Einar Sveinbjörnsson í pistli á vef sínum Bliku.is. Hann minnir á að ullarvettlingar komi líka í góðar þarfir.
Bítandi frost
Vetrarkuldi er almennt í stórum dráttum af tvennum toga, skrifar Einar: Annars vegar þegar er hæglátt og stjörnubjart. Yfirborðið kólnar og frost í tveggja metra hæð mælist mikið. Ofar er oft hlýrra og því ekki endilega svo kalt loft á ferðinni. Hin gerðin er þegar loftið kemur frá köldum svæðum með strekkingi og stundum hvassri norðanátt. Þá mælist kannski ekki jafn mikið frost, en það bítur í vindinum.
„Þannig er það einmitt nú,“ skrifar Einar sem telur að um verði að ræða mesta kuldakast í Reykjavík frá árinu 2013. Hann segir að nú sé þörf á að „dusta rykið“ af vindkælingartöflum. Spáð er 7 stiga frosti á hádegi á fimmtudag og á sama tíma um 10 metrum á sekúndu í vindi. „Það jafngildir nærri -16°C,“ bendir Einar á.
Fréttatilkynning Veitna í morgun var einnig hrollvekjandi. Þar á bæ hefur viðbragðsáætlun verið virkjuð og fólk er hvatt til að fara sparlega með heitt vatn. „Sé tekið mið af spálíkönum, sem nýta veðurspár til að áætla notkun, er útlit fyrir að hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu fari að þolmörkum á föstudag og fram yfir helgi,“ segir í tilkynningunni. Minnt er á að þeir köldu dagar sem við höfum upplifað að undanförnu hafa verið í hæglátu veðri. „Nú er hins vegar útlit fyrir töluverðan vind sem veldur mikilli kælingu ofan á það frost sem er í kortunum.“
Kerfi hitaveitunnar er „stórt og umfangsmikið og er í sífelldri uppbyggingu“ sem miðuð er að spám um fólksfjölgun og byggingamagn, segir ennfremur í tilkynningunni. „Það sem ekki var fyrirséð í langtímaspám var sú aukning sem verið hefur í notkun á hvern íbúa síðastliðið ár. „Til samanburðar hefur söguleg aukning i hitaveitunni verið 1,5% - 4% milli ára en heildarnotkunin í ár er 11% meiri en á síðasta ári.“
Veitur biðja fólk að:
- Hafa glugga lokaða
- Hafa útidyr opnar ekki lengur en þörf krefur
- Láta ekki renna í heita potta
- Varast að byrgja ofna
- Minnka þrýsting á snjóbræðslukerfum
Veðurfræðingur Veðurstofu Íslands minnir svo á: „Ekki er gert ráð fyrir að vind lægi að gagni fyrr en síðdegis á föstudag, þá fyrst vestast á landinu. Þá styttir einnig upp fyrir norðan og austan.
Eins og oft vill verða þegar lægir og léttir til eftir kalda norðanátt, þá hækka frosttölur á hitamælum og horfur eru á hægum vindi um helgina með hörkufrosti.“