Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvetur til raunhæfrar bjartsýni hvað varðar tímasetningu bólusetningar við COVID-19 hér á landi.
Hann segir að Lyfjastofnun Evrópu eigi enn eftir að gefa út samþykkt sína á bóluefni Pfizer/BioNTech þannig að það geta farið í almenna notkun. Búist sé við því að það gerist í lok árs og ef niðurstaðan verður jákvæð væri hægt að hefja bólusetningar fljótlega eftir áramót. „Auðvitað verða það ánægjulegar fréttir ef svo verður en ég held að það sé ekki hægt að ganga út frá því sem vísu á þessari stundu. Hvað varðar önnur bóluefni sem við höfum rétt á að fá þá mun taka lengri tíma að fá úttekt og niðurstöðu lyfjastofnunar Evrópu og þá enn lengri tíma að fá bóluefni hingað til lands.“
Þórólfur segir því mikilvægt að viðhafa áfram þær sóttvarnir sem stundaðar hafa verið hérlendis í faraldrinum þar til að stór hluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur. „Ég vil einnig minna á að áhrif bólusetningar hjá einstaklingum sjást ekki fyrr en um einum mánuði eftir að fyrsti skammtur hefur verið gefinn. Pössum okkur þannig á því að láta ekki jákvæðar fréttir af bóluefnum leiða til þess að við hættum að passa okkur í sóttvörnum, því það mun einungis leiða til uppsveiflu í faraldrinum aftur. Höldum út, stöndum saman og pössum upp á grundvallaratriði sóttvarna.“
Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.
Sagði raunhæft að bólusetja í janúar
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar Íslands, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að raunhæft væri að hefja bólusetningar hérlendis í janúar. „Það er mjög raunhæft að það verði í janúar. En það er ekki auðvelt um það að segja. Við komum ekki að innkaupum að bóluefninu eða flutningnum til landsins,“ sagði Rúna. Gert væri ráð fyrir að bóluefnið sem Ísland er búið að semja um aðgengi að komi hingað til lands í einu lagi.
Greint var frá því í gær að lyfjaeftirlit Bretlands hefði lagt blessun sína yfir bóluefni Pfizer/BioNTech og að dreifing á því gæti hafist þar í landi strax í næstu viku. Bretar hafa þegar pantað um 40 milljónir skammta af bóluefni sem duga til að bólusetja um 20 milljón manns.
Þórólfur sagði á fundinum í dag að það væri mjög áhugavert að Bretar hefðu farið sjálfir af stað í þessa vegferð og að það væri ábyrgðarhluti að segja að bóluefnið væri virkt og öruggt.