Kostnaður vegna veittrar félagsþjónustu á hvern íbúa er hvergi hærri en á Akureyri, þar sem hver íbúi greiðir 267 þúsund krónur fyrir þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Til samanburðar má nefna að vegið meðaltal kostnaðar sveitarfélaga vegna veittrar félagsþjónustu er 190 þúsund krónur á íbúa. Kostnaður íbúa á Akureyri er því 40 prósent meiri en meðaltalsgreiðsla allra íbúa.
Um er að ræða fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á slíkri að halda, þjónustu við börn og unglinga, þjónustu við fatlað fólk og aldraða og ýmislegt annað sem fellur undir málaflokkinn.
Þetta má lesa út úr lykiltölum úr rekstri sveitarfélaga á árinu 2019 sem Samband íslenskra sveitarfélaga birti í lok nóvember.
Akureyrarbær þjónustar einnig nokkur sveitarfélög í kringum sig með félagsþjónustu gegn vægu gjaldi. Um er að ræða Hörgársveit (íbúar þar greiða 60 þúsund krónur hver fyrir félagsþjónustu á ári), Eyjafjarðarsveit (íbúar þar greiða 65 þúsund krónur hver fyrir félagsþjónustu á ári), Grýtubakkahrepp (íbúar þar greiða 75 þúsund krónur hver fyrir félagsþjónustu á ári) og Svalbarðsstrandarhrepp (íbúar þar greiða 46 þúsund krónur hver fyrir félagsþjónustu á ári). Öll fjögur sveitarfélögin eru á meðal þeirra 20 sveitarfélaga sem hafa lagt fram tillögu til landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður 18. desember sem felur meðal annars í sér að fallið verði frá hugmyndum um lögfestingu 1.000 íbúa lágmarksstærðar sveitarfélaga, en frumvarp um það efni liggur nú fyrir Alþingi.
Á Akureyri búa 19.217 manns. Í Eyjafjarðarsveit búa 1.090 mans, Í Hörgársveit 648, Í Svalbarðsstrandarhreppi 435 og í Grýtubakkahreppi 371.
Sveitarfélög sem skera sig úr
Þegar horft er á útgjöld félagsþjónustu sem hlutfall af skatttekjum er einungis eitt sveitarfélag sem greiðir hærra hlutfall en Akureyri í félagsþjónustu. Það er Reykjavík, en höfuðborgin greiðir 26 prósent af skatttekjum sínum í veitta félagsþjónustu á meðan að það hlutfall er 24 prósent á Akureyri. Meðaltalshlutfallið á landinu er 18 prósent.
Kjarninn greindi frá því í byrjun viku að íbúar í Reykjavík eru að borga sjö sinnum hærri fjárhæð í fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á slíkri að halda en íbúar nágrannasveitarfélagsins Seltjarnarness. Þeir greiða tvöfalt meira fyrir alla veitta félagsþjónustu en íbúar í Kópavogi og Garðabæ og draga líka vagninn þegar kemur að uppbyggingu á húsnæði fyrir lágtekjuhópa.
Mikil kostnaður við fatlaða
Sveitarfélögum er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Á Akureyri getur fjárhagsaðstoð til einstaklings verið allt að 184.208 krónur á mánuði og hjón eða sambúðarfólk getur fengið samtals allt að 294.732 krónur á mánuði.
Hver Akureyringur greiðir níu þúsund krónur í fjárhagsaðstoð á ári hverju, sem er tæpur helmingur þess sem hver íbúi í Reykjavík greiðir vegna hennar og þrjú þúsund krónum minna en sveitarfélög greiða að meðaltali í slíka.
Þegar kemur að kostnaði við fatlaða, sem tekur til útgjalda vegna stuðningsþjónustu, ferðaþjónustu fatlaðra, frekari liðveislu, búsetu, skammtímavistunar fyrir fatlaða, dagþjónustu og annarrar þjónustu fyrir fatlaða, stendur Akureyri hins vegar upp úr meðal stærri sveitarfélaga á landinu þegar kemur að kostnaði. Hver íbúi í höfuðstað Norðurlands greiðir 178 þúsund krónur á ári vegna þjónustu við fatlað fólk á meðan að meðaltalsgreiðsla allra íbúa landsins er 93 þúsund krónur, eða rúmur helmingur þess sem hver íbúi á Akureyri greiðir. Til samanburðar greiða nágrannasveitafélög Akureyrar Hörgársveit (16 þúsund krónur á íbúa), Eyjafjarðarsveit (15 þúsund krónur á íbúa), Svalbarðarstrandarhreppur (11 þúsund krónur á íbúa) og Grýtubakkahreppur (eitt þúsund krónur á íbúa) brot af því sem íbúar Akureyrar greiða hver og einn.
Þegar kemur að kostnaði vegna þjónustu við aldrað fólk, sem felur í sér útgjöld vegna dvalar- og hjúkrunarheimila, dagdvalar, stuðningsþjónustu, tómstundastarf og annarrar þjónustu við aldraða íbúa er Akureyri nánast á pari við það sem íbúar landsins greiða að meðaltali fyrir að uppihald á slíkri þjónustu. Öll nágrannasveitarfélög Akureyrar, að Grýtubakkahreppi undanskildum, greiða minna á hvern íbúa.