Undanfarna daga hafa fjölmiðlar fjallað um málarekstur namibíska ríkisins gagnvart þeim aðilum þar innanlands sem sakaðir eru um mútuþægni og spillingu í tengslum við úthlutun á kvóta til félaga tengdum Samherja. Í umfjöllunum miðla bæði hér á landi og í Namibíu hefur komið fram að spillingarlögreglan í Namibíu hafi íslenska starfsmenn Samherja í sigtinu, samkvæmt dómskjölum sem lögð hafa verið fram af hálfu yfirvalda.
RÚV sagði frá því í upphafi mánaðar að í eiðsvarinni yfirlýsingu rannsóknarlögreglumanns segði að namibíska lögreglan væri að reyna að grafast fyrir um dvalarstaði að minnsta kosti tveggja nafngreindra Íslendinga tengdum starfsemi Samherja í Namibíu, með það að markmiði að hefja ferli til að fá þá framselda.
„Glæpir eiga sér engin landamæri,“ hafði namibíska blaðið Republikain eftir ríkissaksóknara landsins, Mörthu Imalwa, í viðtali á dögunum.
Samherji segir á móti, bæði í yfirlýsingu á vef sínum og í svörum til namibískra fjölmiðla, að engar tilraunir hafi verið gerðar af hálfu fulltrúa namibískra stjórnvalda til að hafa afskipti af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum félaga tengdum Samherja, fyrirtækið sjálft eða yfirvöld hvorki á Íslandi né öðrum ríkjum þar sem umræddir starfsmenn hafa verið við störf.
Einnig hefur sjávarútvegsfyrirtækið haldið því til haga að namibísk yfirvöld hafi engar lagaheimildir til að krefjast framsals íslenskra ríkisborgara, þar sem enginn samningur sé til staðar á milli Íslands og Namibíu um framsalið. Þetta er að sjálfsögðu rétt. Íslenska ríkisborgara þarf ekki að framselja til Namibíu, þrátt fyrir að beiðnir um framsal berist þaðan.
Íslenska ríkisborgara þarf einungis að framselja til ríkja Evrópusambandsins og Noregs, samkvæmt evrópsku handtökuskipuninni, sem lögfest var á Íslandi árið 2016 og tók endanlega gildi 1. nóvember 2019, í kjölfar þess að öll aðildarríki þessarar handtökuskipunar höfðu fullgilt samninginn.
Ekki framsal en alþjóðleg lögsaga um mútubrot
Frá því að Samherjaskjölin komu upp á yfirborðið í nóvember í fyrra hefur nokkrum sinnum verið fjallað um möguleikann á framsali íslenskra sakborninga til Namibíu, færi svo að namibísk yfirvöld legðu fram ákærur á hendur einhverjum.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari ræddi þetta atriði við Mannlíf í sumar, skömmu eftir að fregnir höfðu borist þess efnis að namibísk yfirvöld hefðu sent beiðni til alþjóðalögreglunnar Interpol með ósk um liðsinni vegna málsins.
„Í öllum tilvikum þegar fram kemur beiðni um framsal þarf alltaf að vísa til einhverra heimilda. Til þess að framsal sé inni í myndinni þurfa að vera einhvers konar samningar eða skuldbindingar þarna á milli landa,“ sagði Ólafur Þór.
Þórdís Ingadóttir, sérfræðingur í alþjóðlegum refsirétti, ræddi þessi mál í Kastljósi á RÚV í nóvember í fyrra. Hún sagði að þrátt fyrir að ekki þyrfti að framselja menn samkvæmt íslenskum lögum væri víð lögsaga um mútu- og spillingarmál, á grundvelli alþjóðlegra samninga sem Ísland hefði gerst aðili að.
Aðild Íslands að samningi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) um baráttu gegn mútum í alþjóðaviðskiptum er það sem varð til þess að í íslenskum hegningarlögum hefur allt frá árinu 1998 mátt finna lagaákvæði sem gerir mútugreiðslur til opinberra starfsmanna refsiverða á Íslandi, sama hvar brotið er framið. Sé sakfellt fyrir slíkt brot getur refsing numið sektum eða allt að 5 ára fangelsi.
Drago Kos, formaður vinnuhóps OECD um mútur, sagði við RÚV í nóvember í fyrra að það yrði „góður prófsteinn á íslensku lögregluna og ákæruvaldið“ að takast á við rannsókn málsins og að vel yrði fylgst með, af hálfu OECD.
Greint var frá því í byrjun september að sex einstaklingar hefðu fengið réttarstöðu sakborninga í rannsókn héraðssaksóknara á starfsemi Samherja. Einn þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, annar forstjóra fyrirtækisins.
Í þeim hópi eru einnig þeir Ingvar Júlíusson fjármálastjóri Samherja á Kýpur og Egill Helgi Árnason fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu. Nöfn þeirra tveggja hafa sérstaklega verið nefnd til sögunnar í umfjöllunum namibískra miðla um vilja namibískra laganna varða til þess að leggja fram framsalskröfur undanfarna daga.