Torg ehf., útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, hefur aukið eigið fé sitt um 600 milljónir króna með því að gefa út nýtt hlutafé. Ónafngreint félag í eigu Helga Magnússonar, sem var fyrir aðaleigandi Torgs, hefur keypt allt nýja hlutaféð. Félög í hans eigu eiga nú um 90 prósent hlutafjár í Torgi.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að tilgangur hlutafjáraukningarinnar sé að „greiða upp óhagstæð lán og mæta því tapi sem veirufaraldurinn hefur valdið á árinu.“
Á árinu 2020 tók Torg yfir rekstur sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar og vefsins Hringbraut.is. Þá festi félagið kaup á eignum og réttindum tengdum vikublaðinu DV, vefnum dv.is, eyjunni.is, pressunni.is, 433.is og fleiri tengdum vefum. Allir ofangreindir fjölmiðlar höfðu verið reknir í miklu tapi árum saman áður en að Torg tók þá yfir.
Í ársreikningi Torgs fyrir síðasta ár kom fram að COVID-19 heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir muni „hafa veruleg áhrif á mörgum sviðum efnahagslífsins, bæði hérlendis og erlendis. Veruleg óvissa ríkir um efnahagsleg áhrif faraldursins, hve lengi hann mun vara og hver áhrifin verða eftir að honum lýkur. Það er mat stjórnenda að ekki sé unnt að leggja mat á áhrif þessa á félagið á þessum tímapunkti. Félagið hefur brugðist við þessum aðstæðum með kostnaðaraðhaldi eins og með því að hætta útgáfu Fréttablaðsins á mánudögum og gert áætlanir sem miða að því að mæta ætluðum samdrætti og hrint þeim í framkvæmd.“
Eigið féð helmingaðist á síðasta ári
Eigið fé Torgs nálægt helmingaðist á síðasta ári. Það var 502 milljónir króna í árslok 2018 en tæplega 290 milljónir króna um síðustu áramót.
Tap félagsins á síðasta ári var 212 milljónir króna en þar var búið að reikna með 50 milljóna króna styrk út ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla. Þeir styrkir voru aldrei greiddir út, enda frumvarp um þá ekki samþykkt. Hins vegar voru greiddar út sérstakir neyðarstyrkir vegna kórónuveirufaraldursins sem á endanum skiluðu Torgi 64 milljónum króna.
Sala á auglýsingum, sem er uppistaða tekna Torgs, dróst saman um 318 milljónir króna á árinu 2019, eða um 12,3 prósent, og var 2.257 milljónir króna. Torg hafi skilað 39 milljón króna hagnaði á árinu 2018.
Skuldir félagsins jukust hins vegar úr 765 milljónum króna í 1.186 milljónir króna, eða um 55 prósent milli ára. Þar munar mestu um að nýjar skuldir við lánastofnanir en langtímaskuldir við slíkar voru 327 milljónir króna í lok síðasta árs.
Eignir Torgs í lok síðasta árs voru að uppistöðu viðskiptavild upp á 752 milljónir króna og áhöld, tæki eða innréttingar sem metin eru á 256 milljónir króna. Í ársreikningi félagsins kemur fram að það hafi keypt tölvubúnað, bifreiðar eða vélar á síðasta ári fyrir 172 milljónir króna.
Meðalfjöldi starfa hjá Torgi var 81 á síðasta ári.
Keyptu hlutabréf fyrir 600 milljónir í fyrra
Félag í að mestu í eigu Helga, sem er fjárfestir og fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, keypti helmingshlut í Torgi um mitt ár í fyrra. Kaupverðið var trúnaðarmál.
Í október keyptu Helgi og samstarfsmenn hans hinn helminginn auk þess sem sjónvarpsstöðinni Hringbraut var rennt inn í reksturinn. Aftur var kaupverðið sagt trúnaðarmál.
Eignarhaldið á Torgi hefur verið í félagi sem heitir HFB-77 ehf. Það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna í fyrra. Torg er eina þekkta eign félagsins og var keypt á síðasta ári. Miðað við þær upplýsingar má ætla að Helgi og viðskiptafélagar hans hafi sett um 1,2 milljarð króna í að annars vegar kaupa Torg og hins vegar að styrkja rekstur útgáfufélagsins nú.
Aðrir eigendur eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, Jón G. Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi. Þeir eiga nú, eftir nýju aukninguna, samtals tíu prósent í Torgi.
Um þriðjungur les fríblaðið
Fréttablaðið, fríblað sem dreift er ókeypis í 80 þúsund eintökum á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, er flaggskip Torgs. Það kemur nú út fimm sinnum í viku. Útgáfudögum þess var fækkað um einn í apríl síðastliðnum, þegar ákveðið var að blaðið myndi ekki lengur koma út á mánudögum. Síðasta breyting á útgáfutíðni fyrir það hafði verið í janúar 2009, skömmu eftir bankahrunið, þegar Fréttablaðið hætti að koma út á sunnudögum.
Blaðið var fyrst gefið út árið 2001 og náði fljótt mikilli fótfestu á dagblaðamarkaði með tilheyrandi sneið af auglýsingatekjukökunni. Vorið 2007 sögðust 65,2 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið.
Undir lok árs 2015 fór lestur blaðsins í fyrsta sinn undir 50 prósent og tæpum þremur árum siðar fór hann undir 40 prósent. Nú mælist lestur Fréttablaðsins 33,8 prósent.
Lesturinn hefur að mestu dregist saman hjá yngri lesendum. Vorið 2010 lásu um 64 prósent landsmanna í aldurshópnum 18 til 49 ára blaðið. Nú lesa 24,3 prósent landsmanna undir fimmtugu það.