Upp hafa komið COVID-19 smit meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd. Um er að ræða einstaklinga sem dvelja í þjónustu Hafnarfjarðarbæjar í húsnæði með íbúðum fyrir fjölskyldur. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Útlendingastofnun.
Í henni segir að fyrsta smitið hafi greinst fyrr í vikunni og hafi aðrir íbúar þá þegar farið í sóttkví en nokkrir þeirra greindust smitaðir í gær.
„Gripið hefur verið til allra viðeigandi ráðstafana til að ná tökum á útbreiðslunni. Hinir smituðu hafa verið fluttir í farsóttarhús í Reykjavík í samvinnu við almannavarnir en Hafnarfjarðarbær þjónustar þá sem dvelja í sóttkví,“ segir í tilkynningunni.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti í samtali við fréttastofu RÚV í morgun að um átt smit væri að ræða. Hann sagði að nokkur fjöldi fólks væri í sóttkví vegna smitanna en gat ekki staðfest hversu margir. Smitrakning væri enn í gangi.
Gagnrýna Útlendingastofnun harðlega
Hælisleitendur gagnrýndu aðstöðu Útlendingastofnunar á Grensásvegi í vikunni en í færslu hópsins Refugees in Iceland á Facebook var birt myndskeið af aðstöðunni þar.
„Enn einu sinni brýtur Útlendingastofnun á mannréttindum og setur heilsu okkar og öryggi í hættu. Fjöldi fólks hefur verið flutt frá Ásbrú í búðir í Reykjavík (Grensás). Við vitum ekki af hverju en við höldum að það sé vegna þess að það sé of kostnaðarsamt að reka búðirnar á Ásbrú.
Undir venjulegum kringumstæðum myndum við fagna því að búa á stað sem er fjölfarnari, eins og við höfum óskað eftir í tvö ár núna. En að gera það í miðjum COVID-faraldri, þegar fólk á meira og minna að vera í einangrun, þýðir að það þarf að gera það vel og varlega. Það var ekki gert af hendi Útlendingastofnunar.“
Lýsa aðstæðum á Grensás sem hræðilegum
Þá kemur fram í færslunni að aðstæður á Grensás séu hræðilegar. Að minnsta kosti tvær manneskjur séu í hverju herbergi og í sumum herbergjum séu jafnvel fjórar til fimm. Hælisleitendurnir segja að Útlendingastofnun neiti að taka tillit til þess að sumir þeirra séu í áhættuhópi þegar kemur að COVID-19.
Þá er bent á að ekki megi fleiri en 10 deila baðherbergi en á Grensás séu 32 með tvær hreinlætisaðstöður.
„Allir vita að sóttvarnaráðstafanir eru öflugasta vopnið gegn frekari útbreiðslu COVID-faraldurs. Jafnvel þótt Útlendingastofnun fari eftir 10 manna takmörkunum, sem hún gerir ekki, þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort þetta ætti ekki vera enn strangara í faraldri.“
Segir að aldrei búi fleiri en tveir saman í herbergi á Grensásvegi
Í tilkynningu Útlendingastofnunar vegna búsetuúrræðis fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Grensásvegi segir að 28 herbergi séu með eldunaraðstöðu. „42 umsækjendur um vernd dvelja í húsnæðinu um þessar mundir. Tveir einstaklingar deila herbergi í flestum tilvikum en þegar um er að ræða einstaklinga sem glíma við alvarleg veikindi dvelja þeir einir í herbergi. Aldrei búa fleiri en tveir saman í herbergi á Grensásvegi.“
Þá kemur fram að í húsnæðinu séu átta baðherbergi og að verið sé að endurnýja þau, tvö og tvö í einu. Meðan á endurbótunum stendur séu því sex baðherbergi í notkun hverju sinni. Sápa og handspritt sé til staðar á baðherbergjum og geti íbúar fengið grímur eftir þörfum hjá öryggisverði.
„Herbergið sem sést á myndum í fjölmiðlum og í myndbandi á samfélagsmiðlum var tekið úr notkun og íbúum þess fengið annað herbergi þegar þeir létu vita af því að vatnskraninn væri bilaður. Þess má geta að herbergið á myndunum er minnsta herbergið í húsinu,“ segir á vef Útlendingastofnunar.