Óstaðfestar sögusagnir fóru á flug á samfélagsmiðlum síðdegis um að Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlaði láta það verða eitt af sínum síðustu verkum í embætti að náða Julian Assange.
„Við höfum enga staðfestingu fengið, en við vonum það besta,“ sagði Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks í samtali við Kjarnann.
Rótin að þessum háværa orðrómi var tíst frá Mark Burns, sjónvarpspresti sem Time Magazine lýsti eitt sinn sem „uppáhaldspresti Bandaríkjaforseta“.
Presturinn var í nánum tengslum við Trump í kosningabaráttu forsetans árið 2016 og hélt gjarnan ávörp á fjöldafundum Trumps. Auk þess mætti hann í fjölmörg sjónvarpsviðtöl og talaði máli forsetans sem álitsgjafi í aðdraganda kosninganna árið 2016.
„Við tökum þessu ekki sem hverju öðru bulli,“ sagði Kristinn.
Skömmu eftir að frétt Kjarnans fór í loftið bar presturinn Mark Burns hins vegar fyrri orð sín um málið, sem vakið höfðu gríðarlega mikla athygli, til baka.
Sagði hann færslu sína hafa verið gáleysilega og heimildarmanninn ótryggan.
Regarding #JulianAssange tweet, Inadvertent tweet, faulty source, please disregard!
— Pastor Mark Burns (@pastormarkburns) December 14, 2020
Athugasemd ritstjórnar: Fyrirsögn og efni greinarinnar hefur verið breytt, eftir að presturinn Burns bar fyrri fullyrðingu sína um að Trump ætlaði að náða Assange, til baka.