Píratar högnuðust um 2,6 milljónir króna á síðasta ári. Tekjur flokksins, sem eru nær einvörðungu úr opinberum sjóðum, voru 86 milljónir króna. Mest munaði um framlög úr ríkissjóði til flokksins sem námu tæpum 83 milljónum króna.
Rekstrarkostnaður Pírata var 82 milljónir króna. Þar af kostaði rekstur aðalskrifstofu 65 milljónir króna og rekstur þingflokks Pírata 15,1 milljón króna. Það þýðir að 95,5 prósent af tekjum Pírata fór í rekstrarkostnað á síðasta ári.
Þetta kemur fram í ársreikningi Pírata sem birtur var á heimasíðu Ríkisendurskoðunar fyrir helgi. Reikningnum átti að skila fyrir 1. nóvember og tæpur mánuður er síðan að ársreikningar sex af þeim átta stjórnmálaflokkur sem sæti eiga á Alþingi voru birtir á vef stofnunarinnar. Reikningur Flokks fólksins var svo birtur 7. desember.
Í áritun skoðunamanna ársreiknings Pírata segir að án þess að gera fyrirvara við reikninginn vilji þeir vekja athygli á að það vanti „reikninga samtals að fjárhæð 1.300.000 að baki bókfærðum útgjöldum. Þó flestar fjárhæðirnar séu mjög lágar og ljóst sé af öðrum gögnum hvað stendur að baki, þá viljum vil láta í ljós álit okkar að leggja þurfi á herslu á að tryggja það, að reikningar séu að baki öllum bókfærðum útgjöldum.“
Reksturinn „heldur kostnaðarsamur“
Skoðanamennirnir, sem eru tveir, láta einnig í ljós það álit sitt að þeim þyki „rekstur Pírata hafa verið heldur kostnaðarsamur eigi það markmið að nást að flokkurinn eigi nægilegan sjóð til þess að standa straum af kosningabaráttu á komandi ári.“
Enginn hinna stjórnmálaflokkanna kemst nálægt því að eyða hlutfallslega jafn miklu af tekjum sínum í rekstrarkostnað og Píratar. Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti stjórnmálaflokkur landsins, eyddi til að mynda 73 prósent af tekjum sínum í rekstrargjöld í fyrra og skilaði 67 milljón króna hagnaði í fyrra. Þess má þó geta að tekjur hans voru mun meiri en Pírata, og allra annarra flokka, en alls námu þær 344,2 milljónum króna í fyrra.
Samfylkingin eyddi helmingi allra tekna í rekstur og skilaði 71,5 milljón króna hagnaði á síðasta ári. Viðreisn eyddi 67 prósent sinna tekna í rekstur og lagði til hliðar 23,8 milljónir króna hagnað, sem mun nýtast í komandi kosningabaráttu.
Flokkur fólksins eyddi þriðjungi tekna í rekstur
Sá flokkur sem er að eyða hlutfallslega lang minnstu í rekstur er þó Flokkur fólksins. Hann hagnaðist um tæplega 43 milljónir króna á árinu 2019. Tekjur flokksins komu nær einvörðungu úr opinberum sjóðum. Alls nam fjárframlag úr ríkissjóði 62,2 milljónum króna og fjárframlag frá Reykjavíkurborg var tæplega 1,1 milljón krónur. Einu öðru tekjurnar sem Flokkur fólksins hafði á árinu 2019 voru félagsgjöld upp á 295 þúsund krónur.
Kostnaðurinn við rekstur flokksins, sem er með tvo þingmenn á þingi og einn fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur, er einungis brot af tekjum hans. Í fyrra kostaði reksturinn alls 22,1 milljón króna og því sat meginþorri þeirrar fjárhæðar sem Flokkur fólksins fékk úr ríkissjóði eftir á bankareikningi hans í árslok. Alls eyddi Flokkur fólksins því um 35 prósent af tekjum sínum í rekstur í fyrra, en lagði afganginn til hliðar til. Svipað var uppi á teningnum árið 2018 þegar hagnaður Flokks fólksins var 27 milljónir króna.
Því átti flokkurinn 65,6 milljónir króna í handbært fé í lok síðasta árs og búast má við að nokkrir tugir milljóna króna bætist við þá upphæð í ár og á því næsta sem munu nýtast í kosningabaráttuna sem er framundan vegna þingkosninga í september 2021.
Til samanburðar þá áttu Píratar 5,3 milljónir króna í handbært fé um síðustu áramót. Þeir eignfærðu hins vegar skuld ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar vegna framlaga við sig, upp á samtals rúmlega 49 milljónir króna. Það er vegna þess að tekjufærsla opinberra framlaga er ekki með sama hætti hjá Pírötum og almennt hjá öðrum stjórnmálaflokkum.