Töluvert fleiri þurftu á fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar til framfærslu að halda á fyrstu tíu mánuðum ársins en allt árið í fyrra. Í júlí einum saman fengu yfir 1.400 manns slíka aðstoð en fjöldinn hefur ekki verið meiri í þeim mánuði í fimm ár. Fjórðungi fleiri fengu fjárhagsaðstoð í október en á sama tíma árið 2019. „Á síðustu árum hefur þeim fjölgað sem sækja sér fjárhagsaðstoð til framfærslu og hefur þunginn verið mikill á árinu 2020,“ segir Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, við Kjarnann.
Velferðarsvið veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Fjárhagsaðstoð er að jafnaði veitt sem styrkur og í tengslum við önnur úrræði velferðarsviðs, eins og ráðgjöf og leiðbeiningar. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings 18 ára eða eldri getur numið allt að 207.709 krónum á mánuði.
Í gangi er vinna við að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð og verið er að móta aðgerðir til að sporna við sárafátækt hjá börnum og fjölskyldum þeirra.
Í heild hafa 2.349 einstaklingar þegar fengið fjárhagsaðstoð á árinu 2020. Tveir mánuðir eiga eftir að bætast við svo sú tala mun hækka. Alls fengu 2.195 einstaklingar fjárhagsaðstoð í fyrra og 2.011 einstaklingar árið 2018.
„Aukningin á fjölda þeirra sem sækja um fjárhagsaðstoð gefur til kynna að ástandið nú sé mörgum erfitt,“ segir Hólmfríður. „Mörg þeirra sem misst hafa vinnuna eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Það er sú aukning sem við finnum einna mest fyrir á velferðarsviði.“
Flestir á leigumarkaði
Í maí fékk 261 foreldri með samtals 441 barn á framfæri fjárhagsaðstoð til framfærslu. Í sama mánuði í fyrra voru foreldrarnir 208 talsins og börn á þeirra framfærslu 338. Langflestar fjölskyldurnar búa í íbúð á almennu leigumarkaði eða hjá Félagsbústöðum. Aðeins tveir foreldrar sem fengu fjárhagsaðstoð í maí síðastliðnum bjuggu í eigin húsnæði. Í maí höfðu 75 foreldrar með 130 börn fengið fjárhagsaðstoð í tólf mánuði.
Ef einstaklingur þarf á aðstoð sveitarfélags að halda í tólf mánuði eða lengur er litið svo á að hætta sé á viðvarandi fátækt. Í október höfðu 462 einstaklingar fengið fjárhagsaðstoð í tólf mánuði, „svo ljóst er að hópur fólks býr við viðvarandi fátækt á Íslandi,“ segir Hólmfríður.
Eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum
Stærsti hópurinn sem fær fjárhagsaðstoð er nú sem fyrr einhleypir karlmenn. Á tímabilinu janúar til október fengu 1.248 einhleypir karlar fjárhagsaðstoð en þeir voru 1.066 á sama tímabili í fyrra.
Algengasta ástæðan fyrir aðstoðinni er að viðkomandi er óvinnufær en Hólmfríður segir helstu breytingarnar að undanförnu þær að þeim sem eru atvinnulaus en hafa ekki bótarétt hefur fjölgað til muna. Sá hópur er nú orðinn jafnstór þeim sem eru óvinnufær eða um 35 prósent af heildarfjölda þeirra sem fá aðstoðina. Þrjár ástæður geta verið fyrir því að fólk eigi ekki rétt á bótum. Í fyrsta lagi gæti fólk ekki hafa áunnið sér rétt á atvinnuleysisbótum vegna lítillar atvinnuþátttöku. Í öðru lagi gæti fólk ekki átt rétt á bótum þar sem það er óvinnufært/sjúklingar og skilar vottorði um það. Það gæti hafa sótt um örorkubætur en fengið synjun og leitað því til borgarinnar. Í þriðja lagi gæti atvinnuleysisbótaréttur verið fullnýttur.
Fólk á almennt ekki rétt á atvinnuleysisbótum nema að hafa starfað í samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði.
Útlendingar illa úti
Þá fer hlutfall fólks með erlent ríkisfang einnig hækkandi og helst þetta í hendur við fjölgun í hópi þeirra sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Í september 2019 fór hlutfall fólks með erlent ríkisfang sem fékk fjárhagsaðstoð velferðarsviðs í fyrsta sinn yfir 30 prósent. Nú eru 40 prósent þeirra sem fá fjárhagsaðstoð með erlent ríkisfang.
Efnahagsþrengingarnar sem orðið hafa vegna heimsfaraldursins hafa komið harkalega niður á útlendingum sem hingað voru komnir til að vinna, m.a. í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.
Heildarkostnaður ársins 2018 vegna fjárhagsaðstoðar velferðarsviðs var tæpur 2,1 milljarður. Á árinu 2019 nam sú upphæð 2,37 milljörðum og það sem af er árinu (janúar til október) nemur kostnaðurinn 2,81 milljarði. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn á árinu 2020 í heild verði rúmir 3,5 milljarðar.