Nú er ljóst að við munum fá færri skammta af bóluefni á næstunni en vonast hafði verið til. Þetta mun verða til þess að hjarðónæmi þjóðarinnar næst ekki fyrr en á seinni hluta næsta árs. Framlínufólk og íbúar öldrunar- og hjúkrunarheimila verða í forgangi þegar bólusetning hefst. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Í gær greindust átta einstaklingar innanlands með COVID-19 sem er svipaður fjöldi og síðustu daga. Sjö voru sóttkví. Þrír liggja á gjörgæsludeild með sjúkdóminn, þar af tveir í öndunarvél.
„Varðandi innalandssmitin þá er faraldurinn ágætlega í rénun þökk sé aðgerðum og samstöðu almennings,“ sagði Þórólfur og að sérstaklega ánægjulegt væri að sjá hversu fáir væru að greinast utan sóttkvíar. „En það er hins vegar ljóst að við erum enn með smit úti í samfélaginu og lítið þarf til að hópsýkingar komi upp.“
Þórólfur fór svo yfir stöðu á afhendingu bóluefna. Samkvæmt samningi við lyfjafyrirtækið Pfizer hafa verið tryggð kaup á bóluefni fyrir 80 þúsund einstaklinga alls. En hráefnaskortur hefur seinkað framleiðslunni og því munu færri skammtar af bóluefni fyrirtækisins koma hingað til lands á næstu mánuðum en áætlað var.
Um jólin er von á bóluefni fyrir um 5.000 einstaklinga og í janúar eða febrúar skömmtum sem duga til að bólusetja 8.000 manns til viðbótar. Þetta er um helmingi minna magn en vonast hafði verið til.
„Þetta þýðir það að við þurfum að stokka aftur upp í forgangsröðun bólusetningar,“ sagði Þórólfur. „Þannig að við áformum að hefja strax bólusetningu eftir jólin og byrjað verður á að bólusetja framlínufólk í heilbrigðisstéttum – um 1.000 manns – og jafnframt vistmenn á hjúkrunar- og öldrunarheimilum sem telja um 3-4.000 manns.“
Í janúar og febrúar verður haldið áfram að bólusetja elstu aldurshópana. „Áframhaldið er síðan óljóst,“ sagði Þórólfur. „Það ræðst af því hversu hratt við fáum bóluefnið og hversu marga skammta. Áætlun um framhaldið verður að bíða betri tíma.“
Enn lengri bið í bóluefni annarra framleiðenda
Hvað önnur bóluefni varðar er óljóst hvenær afhending getur hafist, „en samkvæmt áætlunum býst ég ekki við að það geti orðið fyrr en um mitt árið 2021 eða seinni hluta þess árs. Við munum því ekki ná góðu hjarðónæmi hér á landi fyrr en seinni hluta næsta árs“.
Þórólfur sagði erfitt að segja til um hvaða áhrif þetta mun hafa á faraldurinn á næstunni en sagði að „vafalaust þurfum við að búa við áframhaldandi takmarkanir fram eftir næsta ári og einnig þurfum við að viðhalda einstaklingsbundnum sóttvörnum.“
Hann sagði hins vegar útlit fyrir að hægt verði að aflétta einhverjum takmörkunum þegar búið verður að bólusetja viðkvæmustu hópana „en það verður líklega ekki fyrr en um mitt næsta ár“.
Núverandi reglugerð um takmarkanir vegna farsóttarinnar gildir fram yfir áramót. „Við þurfum áfram að standa saman og gæta okkar og passa okkur. Þetta er ekki búið. Við vonuðumst til að sjá hraðari bólusetningar strax eftir áramótin en við þurfum að lifa við það að það mun ganga hægar en við vonuðumst til.“
Alma Möller landlæknir minnti á að tilgangur bólusetningarinnar væri að verja fólk fyrir sjúkdómnum COVID-19. Til að hjarðónæmi náist þurfi að lágmarki að bólusetja 65 prósent þjóðarinnar. Unnið er að því að taka saman upplýsingar sem eiga að auðvelda fólki að taka ákvörðun um bólusetningu. „Auk ávinnings fyrir einstaklinginn er það líka hagur samfélagsins að hjarðónæmi náist,“ sagði hún.
Saman í gegnum skaflinn
„Við gerum okkur vonir um að fyrstu skammtarnir af bóluefni komi 24. desember," sagði sóttvarnalæknir. „Og þá er okkur ekkert að vanbúnaði að hefja bólusetningu strax eftir jólin. Við byrjum eins fljótt og hægt er.“
Vegna þess að magnið verður ekki eins mikið og vonir stóðu til verður jafnvel ekki hægt að bólusetja alla innan ákveðinna forgangshópa þegar í stað. Sagði Þórólfur að líklega eigi óánægjuraddir eftir að heyrast. „En við verðum að vinna okkur í gegnum skaflinn eins og málin þróast,“ sagði hann. „Við verðum að þreyja þorrann.“
Uppfært kl. 6.44:
Tilkyning frá sóttvarnalækni:
Vegna umræðu um dreifingu bóluefna gegn COVID-19
Að gefnu tilefni vill sóttvarnalæknir taka fram að á þessari stundu liggja einungis fyrir áreiðanlegar upplýsingar um afhendingu fyrstu skammta bóluefnis frá Pfizer.
Á upplýsingafundi í morgun mátti skilja á orðum mínum að ekki væri að vænta bóluefna frá öðrum framleiðendum fyrr en á síðari hluta næsta árs. Þetta var ofsagt. Ísland hefur þegar tryggt sér kauprétt á bóluefni fyrir um 60–70% þjóðarinnar en ekki liggur enn fyrir hvenær og hversu mikið bóluefni kemur í hverri sendingu.
Áætlanir framleiðenda munu skýrast þegar fram í sækir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.