Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur óskað eftir því við Evrópusambandið að tollasamningur Íslands og Evrópusambandsins um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Þar segir að úttekt sem það lét framkvæma sýni að forsendur samningsins hafa breyst og ójafnvægi er á milli samningsaðila, íslenskum útflytjendum í óhag.
Niðurstaða úttektarinnar er að verulegt ójafnvægi ríkir í samningnum. Nýting íslenskra útflytjenda á kvótum til ESB er í flestum tilfellum lítil eða engin á meðan tollkvótar til innflutnings frá ESB hafa nær allir verið fullnýttir og umtalsvert magn flutt inn utan kvóta. Efnahagslegt mat utanaðkomandi ráðgjafa frá síðastliðnu vori og vitnað er til í úttektinni staðfestir þetta.“
Í nýlegri skýrslu verðlagseftirlits Alþýðusambandsins sem gerð var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, kom fram að verð á innfluttum kjötvörum og ostum, þar sem tollkvótar hafa stækkað í samræmi við tollasamninginn frá 2015, hækkaði mun minna en við mátti búast vegna veikingar krónunnar á tímabilinu desember 2019 til september 2020. Í einhverjum tilvikum lækkaði það.
Samhliða hefur úrval af búvörum, bæði innfluttum og innlendum, aukist. Félag atvinnurekenda, hagsmunasamstök ýmissa aðila sem stunda sölu á matvöru, hefur sagt að þessi þróun sýni kosti þess að innlendur landbúnaður hafi samkeppni frá innflutningi.
Halldóra Kristín Hauksdóttir, stjórnarkona í Bændasamtökum Íslands, sagði í grein sem hún birti á Kjarnanum í síðustu viku að segir það væri rangt að tollasamningurinn sem gerður var við Evrópusambandið árið 2015 hafi skilað neytendum lægra verði.
Í grein hennar sagði m.a.: „Það er staðreynd að kjöt hefur hækkað heldur meira en almennt verðlag í landinu, með öðrum orðum bændur fá færri krónur í vasann á meðan neytandinn þarf að greiða fleiri. Á sama tíma og tekjur bænda rýrna hafa innflytjendur á landbúnaðarvörum á þessu tímabili fengið um 3 milljarða endurgreidda frá ríkinu (sem neytendur voru búnir að borga) vegna oftekinna skatta í formi tolla. Samkvæmt skýrslu starfshóps, sem falið var að greina þróun tollverndar og stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, jókst innflutningur landbúnaðarafurða verulega frá 2007 til 2019. Í sumum tilfellum margfaldaðist innflutningurinn.“