„Efnahagsmálaumræðan hér á landi er úrelt og þess vegna eiga hægri menn hana enn þá. Þessu verðum við að breyta,“ skrifar Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka og nú frambjóðandi í forkönnun Samfylkingarinnar í Reykjavík, í færslu sem hún birtir í Facebook-hópi Félags frjálslyndra jafnaðarmanna á Facebook.
Þar falast Kristrún eftir stuðningi í skoðanakönnun Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, sem hófst í gær og stendur fram á sunnudag og útskýrir í ítarlegu máli af hverju hún ákvað að gefa kost á sér. „Það væri ósatt að segja að þetta framboð hafi staðið til í langan tíma. Síðasta ár hefur hins leitt mig niður ákveðinn árfarveg og ég hef leyft mér að fljóta með,“ skrifar Kristrún.
Hún segir að henni hafi blöskrað hvernig umræðan hér á landi um efnahagsleg viðbrögð við COVID-krísunni þróaðist. „Fólk og lítil fyrirtæki sem hafa verið sjálfsprottin byggðastefna hér undanfarin ár í ferðaþjónustunni fengu þau skilaboð að í kreppum þyrfti ákveðin „hreinsun“ að eiga sér stað. Ég skildi þetta ekki og geri ekki enn – við stöndum í miðjum náttúruhamförum, þar sem opinberar sóttvarnaraðgerðir hamla getu takmarkaðs hóps til að sjá sér farborða og ráðamenn geta leyft sér að fullyrða að ef atvinnuleysisbætur verði hækkaðar letji það fólk til vinnu. Það hefur enga vinnu verið að fá!“ skrifar Kristrún.
„Vonbrigði mín hafa verið mikil“
Hún segist hafa rætt við fjölda eigenda lítilla fyrirtækja um allt land, sem hafi byggt upp þjónustu og greitt sér lág laun til að styðja við fjárfestingu og horft á allt eigið fé sitt hverfa á nokkrum mánuðum.
„Þetta eru fyrirtæki sem eru ekki með öfluga og fjársterka bakhjarla, ekki með sterkt bankasamband og margir hverjir að lenda í persónulegum fjárhagserfiðleikum. Fólk sem alltaf hefur staðið á sínu, og vann launalaust síðustu mánuðina til að halda öðrum í vinnu. Við erum lítið og náið samfélag, en við gátum ekki gripið utan um venjulegt fólk sem missti lífsviðværi sitt né okkar viðkvæmustu hópa sem verða alltaf harðast úti í ástandi sem þessu. Vonbrigði mín hafa verið mikil,“ skrifar Kristrún og bætir við að hún hafi enda „látið ráðamenn heyra það“ undanfarna mánuði.
„Ég vissi fyrir víst að ég myndi ná til breiðari hóps fólks því fáir bjuggust við því að manneskja í minni stöðu væri tilbúin að gagnrýna meðferð á þeim sem veikast standa í dag,“ skrifar Kristrún. Hún segist hins vegar hafa alist upp á jafnaðarmannaheimili og gengið með þau gildi allt sitt líf.
Þá segist hún hafa reynt að hafa áhrif á fjármálakerfið innan frá og haldið eldræður í sínu starfi um mikilvægi jöfnuðar og hlutverk hins opinbera í að tryggja að kerfið vaxi fyrir alla en ekki fáa.
Samfylkingin þurfi að taka sig á í framsetningu efnahagsmála
„Velferðar- og jafnréttismál okkar jafnaðarmanna eiga að vera leiðarljósið í öllum stefnumálum, en þeir sem stýra peningum í landinu og skilja hvernig fjármagn flæðir um kerfið hafa gríðarleg völd. Þetta vitum við öll. Ég tel mig búa yfir sérstökum eiginleikum; ég hef mikla þekkingu á fjármálainnviðum landsins og dýnamíkinni í hagkerfinu en afar takmarkaðan áhuga á að græða peninga. Þörf fólks til að finna fyrir fjárhagslegu öryggi get ég þó tengt við enda eins og margir alin upp af fólki sem hafði oft áhyggjur af peningum,“ skrifar Kristrún.
Hún segist hafa mikla trú á möguleikum Samfylkingarinnar til að verða kjölfestuflokkur í íslenskum stjórnmálum, en að erfitt hafi reynst að „kveða niður þá mýtu hérlendis að flokkar vinstra megin við miðju geti ekki stjórnað efnahagsmálunum.“
Hún segir flokkinn þurfa að taka sig á varðandi framsetningu efnahagsmála og hvernig þau eru tengd við jafnaðarmannagildi. „Hagfræðin hefur gjörbreyst á undanförnum árum, þar sem öll áherslan er einmitt á að reka hagkerfi eftir gildum sem falla að öllu leyti með jafnaðarmönnum. Efnahagsmálaumræðan hér á landi er úrelt og þess vegna eiga hægri menn hana enn þá. Þessu verðum við að breyta,“ skrifar Kristrún.