„Samkvæmt mínu norðlenska tungutaki eða málvitund þýðir orðið grenjandi minnihluti = mikill minnihluti. Samanber einnig grenjandi stórhríð eða grenjandi rigning, sem sagt mikið af hvoru tveggja. Hefur ekkert með grát að gera,“ skrifar Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna og forseti Alþingis í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Þar svarar hann Guðna Ágústssyni fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, sem reit blaðagrein á sama vettvangi sem birtist á miðvikudag, sem hafði einmitt fyrirsögnina „Örlítill grenjandi minnihluti“. Var þar ítrekað vísað til sömu orða Steingríms sem hann lét falla í þingræðu um Hálendisþjóðgarð í síðustu viku.
Ýmsir hafa tekið orðum Steingríms illa, eða sem svo að hann hafi verið að tala um einhvern vælandi og skælandi minnihluta. Í grein sinni í dag útskýrir Steingrímur að svo sé ekki. Hann hafi verið að vísa til þess að mikill minnihluti, eða um 10 prósent, hafi í nýjustu skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sagt á móti hugmyndinni um að stofna þjóðgarð á miðhálendinu.
„Tíu prósentin sem lýstu andstöðu leyfði ég mér sem sagt að kalla örlítinn eða mjög mikinn („grenjandi“) minnihluta. Það er tölfræðilegt mat en hefur ekkert með skoðanafrelsi eða virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum að gera,“ skrifar Steingrímur.
Norðlenskt tungutak forseta Alþingis hefur sem áður segir farið fyrir brjóstið á sumum andstæðingum Hálendisþjóðgarðs.
„Þetta er skandall að forseti Alþingis láti svona út úr sér. Hann er í raun að gera lítið úr Alþingi með þessum ummælum. Hvernig eiga landsmenn að geta treyst þessari stofnun þegar forseti Alþingis talar svona um hluta landsmanna?“ sagði Kristinn Snær Sigurjónsson, sem heldur utan um undirskriftasöfnun gegn þjóðgarðsáformum, í samtali við Kjarnann í síðustu viku.
Ítrekar að ekki sé verið að taka neitt af neinum
Í grein sinni rekur hann einnig að það sé „þvættingur“ sem hvergi eigi sér stoð í frumvarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra að „taka eigi stjórnina af sveitarfélögunum og bændum“ og að „ríkisstofnun í Reykjavík taki að sér afréttarlöndin, sekti og rukki alla unnendur hálendisins, reki bændur og sauðkindina til byggða“ eins og Guðni hélt fram í áðurnefndri grein sinni.
Steingrímur leggur áherslu á, rétt eins og hann gerði í þingræðu sinni um málið, að sveitarfélögum yrði tryggð mjög sterk staða í stjórnkerfi fyrirhugaðs þjóðgarðs og að með frumvarpinu væri ekki verið að taka neitt frá neinum.
„Þetta snýst um að leyfa okkur og komandi kynslóðum að eiga hálendið áfram saman. Þeim sem landið byggja og gestum þeirra að njóta þess án þess að það spillist, og varðveita og nýta á sjálfbæran hátt mestu auðlind Íslands, með fullri virðingu fyrir fiskimiðunum, landið okkar,“ skrifar Steingrímur.