Alls 20 þingmenn, 18 úr stjórnarandstöðu og tveir þingmenn Vinstri grænna, hafa lagt fram beiðni um að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, láti gera skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi. Fyrsti flutningsmaður málsins er Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Þingmennirnir vilja að ráðherrann láti taka saman fjárfestingar útgerðarfélaganna, dótturfélaga þeirra og félaga þeim tengdum í félögum sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu 10 árum og bókfært virði eignarhluta þeirra í árslok 2019. Í beiðninni er sérstaklega farið fram á að í skýrslunni verði raunverulegir eigendur þeirra félaga sem yrði til umfjöllunar tilgreindir og samantekt á eignarhlut 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi byggt á framangreindum gögnum.
Þingmennirnir sem leggja fram beiðnina eru allir þingmenn Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins. Auk þess eru þrír þingmenn Pírata á beiðninni ásamt Andrési Inga Jónssyni, þingmanns utan flokka, og þel Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Kolbeini Óttarssyni Proppé úr Vinstri grænum. Því eru fulltrúar allra flokka á þingi nema Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks á beiðninni.
Uppsöfnun eigna og áhrifa á fárra hendur
Í greinargerð með beiðninni segir að eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja hafi batnað verulega frá hrunsárunum og að bókfært eigið fé þeirra hafi staðið í 276 milljörðum krónum við lok árs 2018, samkvæmt gagnagrunni Deloitte um afkomu sjávarútvegsins 2018. „Vísbendingar eru um að fjárfestingar þeirra út fyrir greinina hafi aukist í samræmi við það. Það er jákvætt að því leyti að það dreifir áhættu félaganna sjálfra en getur hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Vegna smæðar sinnar er íslenskt atvinnulíf sérstaklega viðkvæmt fyrir fákeppni.“
Stórir leikendur
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um aukin ítök stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins í óskyldum geirum á undanförnum árum. Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með beint og óbeint yfir 17 prósent alls úthlutaðs kvóta, hefur til að mynda verið ráðandi í Eimskip og á stóran hlut í Jarðborunum.
Þá er SVN eignafélag, sem er í eigu Síldarvinnslunnar (Samherji á beint og óbeint 49,9 prósent hlut i henni), langstærsti eigandi Sjóvá með 14,52 prósent eignarhlut. Samherji átti lengi vel stóran hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, en lánaði Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, til að kaupa þann hlut af sér. Eyþór hefur ekki endurgreitt það lán.
Kaupfélag Skagfirðinga, Hvalur hf., Stálskip og Ísfélag Vestmannaeyja eru dæmi um önnur félög í útgerð, eða sem voru í útgerð en hafa selt sig út úr henni, sem eru afar umsvifamikil í íslensku viðskiptalífi.