Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki látið ná í sig vegna fréttaflutnings af „læki“ sem hann setti við færslu á Facebook, sem gagnrýndi RÚV harðlega fyrir umfjöllun um Samherjamálið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Kjarnans til að nálgast svör ráðherra.
Kjarninn sendi fyrst fyrirspurn til ráðherra og aðstoðarmanna hans, þeirra Gunnars Atla Gunnarssonar og Ingu Hrefnu Sveinbjarnardóttur, þann 14. desember í gegnum tölvupóst og ítrekaði þá fyrirspurn í gegnum sama samskiptamáta, sem og í gegnum sms, símhringingar og Facebook. Óskir um svör og samtöl hafa verið hunsaðar.
Ráðherrann líkaði við, eða setti „læk“ við, færslu sem birtist þann 12. desember þar sem höfundur færslunnar sagðist líta svo á að RÚV færi offari í fréttaflutningi af Samherja og félli „í sömu gryfju og Seðlabankinn“.
Áralöng tengsl við Samherja
Kristján Þór á langa sögu með Samherja og þegar hann tók við sem ráðherra sjávarútvegsmála árið 2017 kom fram gagnrýni vegna tengsla hans við fyrirtækið og Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra og einn aðaleiganda þess. Kristján Þór hafði setið í stjórn Samherja, þar af í eitt ár sem stjórnarformaður, á árunum 1996 til 2000.
Hann fór auk þess tvívegis sem háseti á makrílveiðar á vegum Samherja, annars vegar sumarið 2010 og hins vegar sumarið 2012, og þáði laun fyrir. Samherji styrkti einnig framboð Kristjáns Þórs í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins árin 2007 og 2013.
„Komi upp mál sem snerta Samherja mun ég að sjálfsögðu meta hæfi mitt“
Ráðherrann birti stöðuuppfærslu á Facebook þann 12. desember 2017 þar sem hann sagði að sér væri ljúft og skylt að upplýsa að hann og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefðu þekkst síðan þeir voru ungir menn. Þar sagði einnig að hann teldi sig „hæfan til þess að taka ákvarðanir um málefni sem snerta sjávarútveginn á Íslandi í heild sinni. Komi upp mál sem snerta Samherja mun ég að sjálfsögðu meta hæfi mitt í ljósi framangreinds líkt og allir stjórnmálamenn þurfa að gera þegar fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsl gætu haft áhrif á afstöðu til einstakra mála.“
Eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera í nóvember 2019 um starfsemi Samherja í Namibíu var enn á ný fjallað um tengsl ráðherrans við fyrirtækið og var hæfi hans til umræðu. Þegar umfjöllunin leit dagsins ljós sagðist ráðherrann ekki hafa haft nein afskipti af útgerðarfyrirtækinu Samherja síðan hann var í stjórn fyrirtækisins.
Sögðu að Kristján væri „þeirra maður“
Fram kom í fyrrnefndri umfjöllun að Samherjamenn hefðu í samræðum við namibíska áhrifamenn sagt að Kristján væri „þeirra maður“. Kristján Þór sagði við RÚV að Samherjamenn yrðu sjálfri að svara fyrir hvað þeir hefðu átt við með þeim ummælum.
Jafnframt kom fram í umfjöllun fjölmiðla að Kristján Þór hefði hringt í Þorstein Má og í viðtali á RÚV sagðist hann bara hafa verið að „spyrja hvernig honum liði einfaldlega“.
Frá því var síðan greint í desember sama ár að Kristján Þór hefði ákveðið á grundvelli stjórnsýslulaga að víkja sæti við meðferð og töku ákvarðana í fjórum stjórnsýslukærum tengdum Samherja. Það gerði hann, að eigin sögn, vegna þess að það skipti ekki einungis máli að sá sem tæki ákvörðun í málunum líti á sitt hæfi heldur líka hvernig hún myndi horfa við borgurunum.
Samherji kærði frétta- og dagskrárgerðarmenn til siðanefndar RÚV
Samherjamenn hafa ekki legið á skoðunum sínum varðandi fréttaflutning RÚV eða umfjöllun miðilsins um málefni fyrirtækisins. Í byrjun september síðastliðins var greint frá því að lögmaður Samherja hefði lagt fram kæru fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins á hendur ellefu nafngreindum frétta- og dagskrárgerðarmönnum vegna „þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum“.
Kæran til siðanefndar byggir á reglu í siðareglum Ríkisútvarpsins sem er svohljóðandi: „Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“
Í kærunni eru athugasemdir gerðar við samfélagsmiðlahegðun frétta- og dagskrárgerðarmannanna, til dæmis þegar þeir deildu eða „líkuðu“ við efni og sagði í kærunni að þannig væri tekið „undir þær skoðanir sem þar er lýst“.
Fréttamenn Kveiks „lýst velþóknun sinni“ á samfélagsmiðlum
Fleiri innan vébanda Samherja hafa horft til samfélagsmiðlanotkunar fréttamanna RÚV en hinn forstjóri Samherja, Björgólfur Jóhannsson, ritaði grein í Kjarnann í september síðastliðnum þar sem hann bryddaði upp á því að honum hefði verið bent á að fréttamenn Kveiks hefðu deilt frétt Kjarnans með fyrirsögninni „Samherji leiðréttir „ásakanir“ Kveiks sem aldrei voru settar fram“ á samfélagsmiðlum og þannig lýst velþóknun sinni á efni hennar.
Í frétt Kjarnans kom fram að Samherji hefði birt nýtt myndband á YouTube, þar sem fyrirtækið hafnaði þremur ásökunum sem það sagði hafa verið settar fram af hálfu Kveiks í nóvember í fyrra. Kveikur hefði þó ekkert fullyrt af því sem Samherji svaraði fyrir.