Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist skilja vonbrigði fólks með að hann hafi verið á stað þar sem sóttvarnareglur hafi verið brotnar. „Það er ekki til eftirbreytni og ég sé mjög eftir því. Ég hins vegar lít ekki svo á að þessi atburður kalli á afsögn af minni hálfu.“
Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna sem birt er á Vísi. Þar segir hann enn fremur að sér líði þannig að hann sé í miðju verki. „Það reyndar vill þannig til, það er ekki mjög langt til kosninga, en við erum í miðju verki við að reisa efnahag okkar við og vinna bug á þessum faraldri og mér finnst þetta mál ekki vera tilefni fyrir mig til þess að stíga frá því verki. Það er einfaldlega of stórt og mikið verkefni til þess að klára.“
Ráðherra í samkvæmi þar sem reglur voru þverbrotnar
Greint var frá því í dagbók lögreglunnar í gærmorgun að ónefndur ráðherra í ríkisstjórn Íslands hefði verið á meðal 40 til 50 gesta sem voru í samkvæmi í sal í útleigu í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi.
Upplýst var síðar að sá salur var listasafnið í Ásmundarsal. Töluverð ölvun var í samkvæminu og enginn þeirra sem þar voru staddir voru með grímur fyrir andliti.
Lögreglan leysti upp samkvæmið vegna þess að það braut í bága við sóttvarnareglur og greindi frá því í morgun að á meðal gesta hefði verið ráðherra í ríkisstjórn Íslands.
Bjarni setti svo stöðuuppfærslu á Facebook klukkan 10:39 í gærmorgun þar sem hann staðfesti að hann hefði verið umræddur ráðherra. Þar sagði meðal annars: „Ég hafði verið í húsinu í um fimmtán mínútur og á þeim tíma fjölgaði gestunum. Rétt viðbrögð hefðu verið að yfirgefa listasafnið strax þegar ég áttaði mig á að fjöldinn rúmaðist ekki innan takmarkana. Það gerði ég ekki og ég biðst innilega afsökunar á þeim mistökum.“
Katrín gerir ekki kröfu um afsögn
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði fyrr í dag við Vísi að hún geri ekki kröfu um að Bjarni segi af sér eftir að hann varð uppvís af því að brjóta sóttvarnareglur á Þorláksmessu.
Þar sagði Katrín að hún hafi rætt við Bjarna í gær og tjáð honum óánægju sína með málið. „Svona atvik skaðar traustið á milli flokkanna og gerir samstarfið erfiðara. Sérstaklega vegna þessa að við stöndum í stórræðum þessa dagana, hins vegar er samstaðan innan stjórnarinnar verið góð og ég tel okkur hafa náð miklum árangri í því sem við erum að vinna að. Við munum halda því ótrauð áfram.“