Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir, í áramótagreinum sem hann ritar í bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið í dag, að Vinstri grænum og Framsóknarflokki sé „vorkunn“ að standa frammi fyrir brýnum úrlausnarefnum með „óábyrgum samstarfsflokki í ríkisstjórn sem skilur ekki gildi samstöðu, samábyrgðar og samhjálpar.“
Í báðum greinum biður Logi þessa flokka um að hafa í huga að aðrir valkostir eru í boði við stjórn landsins. Í Morgunblaðinu gagnrýnir formaður Samfylkingarinnar bæði þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokks sérstaklega fyrir framgöngu sína í sóttvarnamálum.
„Nær algjör og aðdáunarverð samstaða almennings á Íslandi að undanförnu á sér eins skýra andstæðu og hugsast getur í fullkomnu ábyrgðarleysi Sjálfstæðisflokksins, sem hefur leikið tveimur skjöldum og hlaupist undan ráðstöfunum eigin ríkisstjórnar,“ skrifar Logi.
Hann, rétt eins og aðrir í forystu Samfylkingarinnar hefur útilokað að flokkurinn komi að ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki eftir næstu alþingiskosningar, sem eru á dagskrá í september á komandi ári.
Logi skrifar í Morgunblaðið að þingmenn flokksins Sjálfstæðisflokksins hafi „hamast gegn settum sóttvarnareglum“ og þá hafi „ráðherraliðið gengið á undan með vondu fordæmi og þverbrotið þær, ítrekað.“
„Markvisst“ grafið undan trausti og tiltrú
Logi segir það eitt að hlaupa á sig og gera mistök, en „eitthvað annað og alvarlegra að gera svona mikið, svona markvisst, til að grafa undan trausti og tiltrú almennings á nauðsynlegum aðgerðum í þágu almannavarna.“
Hann ritar að „ábyrgðartilfinningin virðist lítil sem engin“ og að svo virðist sem lítið sé hugsað til þeirra sem hafi lagt mikið á sig í framlínustörfum eða þeirra sem hafa misst lífsviðurværið vegna sóttvarnar eða annarra sem faraldurinn hafi snert á einn eða annan máta.
„Þetta eru ekki viðhorf sem við þurfum á að halda þegar uppbygging samfélagsins hefst á ný,“ skrifar Logi í Morgunblaðið. Í Fréttablaðið skrifar hann að valkostirnir verði skýrir, „annaðhvort enn ein vandræðastjórnin með Sjálfstæðisflokknum eða græn félagshyggjustjórn“.