Dómari í framsalsmáli Julian Assange í Bretlandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að Assange skuli ekki framseldur frá Bretlandi til Bandaríkjanna, þar sem hann sætir ákæru fyrir njósnir. Frá þessu greina breskir og bandarískir fjölmiðlar í dag.
Í frétt BBC um niðurstöðuna kemur fram að dómarinn hafi synjað framsalsbeiðni Bandaríkjanna vegna andlegrar heilsu Assange, sem glími við sjálfvígshugsanir. Áhyggjur séu uppi um um að hann kunni að valda sjálfum sér skaða í haldi bandarískra yfirvalda.
Bandarísk yfirvöld hafa þegar gefið út að niðurstöðu dómarans verði áfrýjað. Samkvæmt umfjöllun New York Times hafa þau 15 daga til að áfrýja niðurstöðunni.
Málið gegn Assange tengist birtingu Wikileaks á 470.000 trúnaðarskjölum frá bandaríska hernum um utanríkisþjónustu og stríðin í Afganistan og Írak. Síðar birti Wikileaks 250.000 skjöl til viðbótar.
Bandarísk stjórnvöld hafa haldið því fram að um lögbrot og njósnir sé að ræða en Assange, Wikileaks og fjölmargir aðrir hafa sagt að upplýsingarnar sem Wikileaks birti og urðu fréttaefni víða um heim, hafi átt ríkt erindi við almenning.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, hefur fylgst náið með réttarhöldunum yfir Assange.
„Það á að slátra manni fyrir að upplýsa um grimmdarverk og glæpi. Fyrir að opinbera sannleikann,“ ritaði Kristinn um réttarhöldin í október á síðasta ári, eftir að hafa varið mánuði í London að fylgjast með framgangi þeirra.