Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks ávarpaði fjölmiðla og stuðningsmenn Julians Assange fyrir utan Old Bailey-dómstólinn í London í dag, eftir að niðurstaða dómara í framsalsmáli Assange lá ljós fyrir. Hann sagði niðurstöðuna sigur fyrir Assange, en þó ekki endilega sigur fyrir blaðamennsku.
Niðurstaða dómarans, Vanessu Baraitser, var á þá leið að andleg heilsa hans væri of brothætt til að öruggt væri að hann myndi ekki valda sjálfum sér skaða í bandarísku fangelsi, þar sem hann myndi líklega sæta strangari einangrun en í Belmarsh-fangelsinu í London, en þar hefur Assange verið haldið í tæplega tvö ár.
Að mati dómarans eru þau meintu brot sem Bandaríkin hafa ákært Assange fyrir og tengjast öflun og birtingu á trúnaðargögnum frá bandaríska hernum um m.a. stríðin í Afganistan og Írak, ekki varin af tjáningarfrelsi hans.
Einnig blés dómarinn á röksemdir lögfræðinga Assange um að það að senda hann til Bandaríkjanna myndi brjóta gegn lögum sem banna framsal manna sem eru saksóttir fyrir „pólitíska glæpi“.
Dómarinn taldi heldur ekki ástæðu til að ætla að réttarhöld yfir Assange á bandarískri grundu yrðu ósanngjörn.
Baráttunni ekki lokið fyrr en Assange gengur frjáls
Kristinn sagði í ávarpi sínu að það væri áhyggjuefni að lögfræðingar bandarískra yfirvalda hefðu þegar gefið í skyn að niðurstöðunni yrði áfrýjað og hvatti hann bandarísk stjórnvöld til þess að láta málið gegn Assange niður falla.
Hann sagði að slagurinn væri ekki búinn þrátt fyrir þennan áfangasigur og yrði ekki búinn fyrr en Assange gæti snúið heim til fjölskyldu sinnar. Eftir að niðurstaðan lá ljós fyrir í morgun var Assange fluttur aftur í Belmarsh-fangelsið.
Á miðvikudag verður beiðni Assange um að fá að ganga laus gegn tryggingu tekin fyrir. Kristinn segir í samtali við Kjarnann að hann búist við því að ákvörðun dómara um mögulega lausn Assange úr haldi gæti legið fyrir samdægurs.
Mannréttindasamtökin Amnesty International lýstu þvi yfir á Twitter að þau fagni niðurstöðu dagsins, en um leið ávíta þau bresk stjórnvöld fyrir sinn þátt í því að málið gegn Assange, sem þau segja af pólitískum meiði, hefur náð að komast á þennan stað.
We welcome the fact that Julian Assange will not be sent to the USA, but this does not absolve the UK from having engaged in this politically-motivated process at the behest of the USA and putting media freedom and freedom of expression on trial.
— Amnesty International (@amnesty) January 4, 2021