Lífeyrissjóðirnir Frjálsi, Birta Festa, Stapi og Lífsverk hafa, ásamt Gildi, ákveðið að hafna yfirtökutilboði fjárfestahópsins Strengs ehf. á Skeljungi. Helsta ástæða lífeyrissjóðanna var sú að tilboðsverðið var of lágt miðað við eigið mat á virði félagsins.
Kjarninn hefur áður greint frá yfirtökutilboði Strengs í nóvember síðastliðnum, en að því félagi kemur Ingibjörg Pálmadóttir, ásamt eigendum Re-Max á Íslandi, hjónunum Sigurði Bollasyni og Nönnu Björk Ásgrímsdóttur og fimm breskum fjárfestum. Tilboðsfrestur Strengs rann út kl. 16:00 í dag.
Strengur bauðst til þess að kaupa alla útistandandi hluti félagsins á 8,315 krónur á hlut, sem var 6,6 prósentum yfir gengi félagsins í byrjun nóvembermánaðar. Þessa stundina kostar hver hlutur í Skeljungi hins vegar 9,03 krónur og gætu því hluthafar fengið meira fyrir sína hluti í Kauphöllinni en Strengur er tilbúinn að borga.
Fyrir tveimur vikum síðan greindi Fréttablaðið frá því að lífeyrissjóðurinn Gildi, sem er stærsti hluthafi Skeljungs að Strengi undanskildum, ætlaði sér að hafna yfirtökutilboðinu, sökum þess hversu lágt yfirtökugengið væri miðað við eigið mat á virði félagsins. Á þeim tíma stóð hlutabréfaverð Skeljungs í 8,65 krónum á hlut. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, sagði hann einnig leggjast gegn yfirlýstum áformum Strengs um að skrá Skeljung af markaði.
Í samtali við Kjarnann fyrr í dag staðfestir Jón L Árnason, framkvæmdastjóri Lífsverks, einnig að sjóðurinn ætlaði sér að hafna tilboðinu vegna lágs verðs á yfirtökutilboðinu og áforma Strengs um að afskrá félagið.
Eftir að tilboðsfrestinum lauk staðfestu lífeyrissjóðirnir Birta, Festa og Frjálsi svo að þeir hefðu hafnað tilboðinu sömuleiðis. Í samtali við Kjarnann sagði Soffía Gunnarsdóttir, forstöðumaður eignastýringar hjá Birtu, að sjóðurinn hafi verið með verðmatsgreiningar á félaginu til grundvallar, en niðurstöður þeirra bentu til þess að félagið væri verðmætara en það sem yfirtökutilboðið hljóðaði upp á. Sama hljóð var í Gylfa Jónassyni, framkvæmdastjóri Festu, sem staðfesti að sjóðurinn hafi ekki heldur tekið tilboðinu.
Hjörleifur Arnar Waagfjörð, forstöðumaður eignastýringar hjá Arion banka, staðfestir einnig að Frjálsi lífeyrissjóðurinn hafi hafnað yfirtökutilboði Strengs þar sem tilboðsverðið hafi ekki verið nægilega hátt. Þó segir Hjörleifur Arnar að sjóðurinn sé jákvæður gagnvart fjárfestahópnum að baki Strengi, en bætir hins vegar við að Frjálsi myndi frekar kjósa að hafa Skeljung skráðan á hlutabréfamarkaði heldur en ekki. Arion banki var einn af tveimur umsjónaraðilum með tilboði Strengs.
Samtals eiga Gildi, Festa, Birta, Frjálsi og Lífsverk 34 prósent af Skeljungi samkvæmt hluthafaskrá félagsins, en sjóðirnir eru stærstu hluthafar félagsins ef eignarhaldsfélögin Strengur og Strengur Holding eru undanskilin.
Uppfært kl. 17: 51: Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, sem á 3,38 prósenta hlut í Skeljungi, staðfesti einnig að sjóðurinn hafi ekki tekið tilboði Strengs þar sem tilboðið var talið vera of lágt miðað við virði félagsins. Einnig taldi sjóðurinn það æskilegt að félag á borð við Skeljung eigi að vera skráð á hlutabréfamarkaði.